Valur vann KA örugglega og er áfram á toppnum

Einar Birgir Stefánsson KA-maður reynir að stöðva Valsmanninn Magnús Óla …
Einar Birgir Stefánsson KA-maður reynir að stöðva Valsmanninn Magnús Óla Magnússon á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslands- og bikarmeistarar Vals eru áfram með fullt hús stiga á toppi Olís deildar karla í handbolta eftir öruggan 26:18-sigur á KA á Hlíðarenda í kvöld.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af og lítið skorað. Bæði lið voru dugleg að tapa boltanum og hjá Val var Björgvin Páll Gústavsson í miklu stuði í markinu. Þegar leið á fyrri hálfleikinn gáfu Valsarar aðeins í og náðu upp nokkurra marka forystu. Þar munaði helst um framlag Magnúsar Óla Magnússonar af bekknum en hann kom virkilega sterkur inn um miðjan fyrri hálfleik og var kominn með fjögur mörk þegar liðin gengu til búningsherbergja. Valur leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, 11:7.

Valur byrjaði seinni hálfleikinn betur og kom muninum fljótlega í sex mörk. Sóknarleikur KA gekk áfram brösuglega en liðið hafði einungis skorað 11 mörk eftir 40 mínútna leik. Valur gekk á lagið og skömmu síðar var munurinn orðinn átta mörk. Eftir það var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi en Valur sigldi þægilegum sigri í höfn.

Eins og áður sagði er Valur því enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar með átta stig. KA er með þrjú stig eftir fjórar umferðir.

Valur 26:18 KA opna loka
60. mín. KA tapar boltanum
mbl.is