Ýmir og Löwen í efsta sætinu

Ýmir Örn Gíslason fagnaði sigri í kvöld.
Ýmir Örn Gíslason fagnaði sigri í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ýmir Örn Gíslason og samherjar hans í Rhein-Neckar Löwen eru á toppi þýsku 1. deildarinnar í handknattleik eftir útisigur á Bergischer í hörkuleik í kvöld, 27:26.

Niclas Kirkelokke skoraði sigurmarkið þegar aðeins tvær sekúndur voru til leiksloka.

Löwen hefur þar með unnið sex fyrstu leiki sína á tímabilinu en Kiel og meistaralið Magdeburg hafa bæði unnið alla fimm leiki sína og geta jafnað við Löwen að stigum áður en sjöttu umferð lýkur.

Ýmir skoraði ekki fyrir Löwen en var að vanda í stóru hlutverki í varnarleiknum og var rekinn tvisvar af velli. Arnór Þór Gunnarsson skoraði ekki fyrir Bergischer sem er með fjögur stig eftir fyrstu sex leikina.

Hannover Burgdorf, með Heiðmar Felixson sem aðstoðarþjálfara, vann Minden 35:34 á útivelli og er með átta stig úr fyrstu sex leikjunum og er í sjöunda sæti.

Wetzlar vann Hamm á útivelli, 29:23, og Stuttgart sigraði Lemgo 32:28.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert