Svekkjandi tap hjá lærisveinum Guðjóns Vals

Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari Gummersbach.
Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari Gummersbach. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðjón Valur Sigurðsson og lærisveinar hans í Gummersbach töpuðu með einu marki, 29:28, gegn Göppingen í þýsku A-deildinni í handbolta í dag.

Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson skoruðu samtals fimm mörk fyrir Gummersbach. Elliði skoraði þrjú en Hákon tvö.

Staðan var hnífjöfn nánast allan tímann en heimamenn í Göppingen skoruðu sigurmarkið í lokin í stöðunni 28:28 og báru því sigur úr býtum.

Gummersbach er í 7. sæti deildarinnar með átta stig eftir sex leiki, þremur stigum á undan Göppingen sem situr í 10. sæti.

Arnór Þór Gunnarsson og liðsfélagar hans í Bergischer máttu sömuleiðis sætta sig við eins marks tap en liðið tapaði 27:26 fyrir Stuttgart á útivelli. Arnór skoraði tvö mörk fyrir gestina sem sitja í 11. sæti deildarinnar með fjögur stig eftir sjö leiki.

mbl.is