Báðir Evrópuleikir ÍBV í Vestmannaeyjum

ÍBV fær úkraínska liðið Donbas í heimsókn ef allt gengur …
ÍBV fær úkraínska liðið Donbas í heimsókn ef allt gengur eftir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Karlalið ÍBV í handknattleik mætir úkraínska liðinu Donbas í 2. umferð Evrópubikarsins í næsta mánuði. Báðir leikirnir munu fara fram í Vestmannaeyjum.

Donbas hélt áður til í Donetsk en vegna áralangra átaka á því svæði færði félagið sig yfir til Mariupol, sem hefur svo komið afar illa út úr innrás Rússlands í Úkraínu.

Því hafði liðið ekki tök á að leika heimaleiki sína í Úkraínu og fór þess á leit við forsvarsmenn ÍBV að báðir leikirnir færu fram í Vestmannaeyjum.

„Þeir báðu okkur að taka á móti liðinu og fá að leika heimaleikinn hjá okkur. Í ljósi aðstæðna kom að sjálfsögðu ekkert annað til greina en að koma til móts við óskir þeirra og bjóða liðið velkomið til Vestmannaeyja.

Talskona félagsins sem verið hefur í tölvupóstsamskiptum við mig fyrir hönd forseta félagsins var mjög þakklát. Svo á eftir að koma í ljós hvernig gengur að komast frá Úkraínu og til okkar.

Við vonum það besta fyrir þeirra hönd en þau mál skýrast þegar nær dregur leikdögum,“ sagði Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV, í samtali við Handbolta.is.

Áætlað er að leikirnir fari fram í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum 5. og 6. nóvember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert