Ég er bara hundfúll

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson með boltann í leiknum í kvöld.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Jónsson, þjálfari Fram, var svekktur eftir 34:27-tap gegn toppliði Vals í Olís deild karla í handbolta á Hlíðarenda í kvöld.

„Ég er bara hundfúll. Við spilum ekki nógu góðan leik til að geta unnið Val hérna í kvöld. Það voru og margir hlutir sem voru ekki í lagi og því fór sem fór, þeir voru bara betri en við, það er bara svoleiðis.“

Leikurinn var hnífjafn lengi vel en á lokakaflanum náði Valur upp góðu forskoti og vann að lokum sjö marka sigur.

„Þetta er náttúrlega bara jafnt fram að 45. eða 50. mínútu. Þá bara dettum við niður en þar spilar leikur Vals auðvitað inn í líka. Það er oft á þessum kafla sem Valur slítur sig frá öðrum liðum. Við náðum ekki að bregðast nógu vel við því, lykilmenn voru orðnir aðeins þreyttir og þá vantaði að fleiri leikmenn myndu stíga upp.

Það vantaði meiri gæði í sóknarleikinn okkar. Við fundum ekki nægilega góðar lausnir og unnum ekki stöðurnar maður á mann, allar 60 mínúturnar nánast. Þetta var orðið svolítið þungt þegar líða fór á leikinn, við vorum að spila á móti frábæru liði en ég var ekki alveg nógu sáttur við þetta, mér fannast frammistaðan ekki nógu góð.“

Breidd Vals kom sér enn og aftur vel í kvöld en liðið fékk gott framlag úr mörgum áttum.

„Þetta er bara vel gert hjá þeim. Við teljum okkur svo sem vera með ágætis breidd líka og reyndum að rúlla mannskapnum aðeins. Þeir eru bara með frábært lið og frábæra leikmenn en það er bara að mörgu leiti jákvætt, þetta er besta liðið á Íslandi í dag og þeir sýndu það í kvöld fannst mér.“

Liðin mætast aftur á fimmtudaginn svo það er stutt í að Fram fái tækifæri til að hefna fyrir tapið í kvöld.

„Nú þurfum við bara að nota tímann fram að leik vel, hlaða batteríin og gera okkur klára. Við þurfum að finna lausnir á sóknarleiknum okkar og þetta er bara skemmtilegt verkefni. Það verður gaman að fá Val upp í Miðdal og þetta verður hörkuleikur, við munum selja okkur dýrt.“

Einar Jónsson, þjálfari Fram.
Einar Jónsson, þjálfari Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert