Maður er alltaf ógeðslega harður við sjálfan sig

Róbert Aron Hostert í leiknum í kvöld.
Róbert Aron Hostert í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Róbert Aron Hostert átti fínan leik þegar Valur vann 34:27-sigur á Fram í Olís deild karla í handbolta á Hlíðarenda í kvöld.

„Það var flott að vinna, eins og alltaf. Það er auðvitað margt í okkar leik sem við megum skoða, við vorum lélegir sóknarlega í fyrri hálfleik sérstaklega þó að við skorum einhver 16 mörk. Það voru klaufalegir tapaðir boltar og seinni bylgjan var ekki nægilega góð. Heilt yfir var þetta samt bara gott, vörnin góð og Bjöggi geggjaður í markinu.“

Leikurinn var jafn þar til um miðjan seinni hálfleikinn en þá seig Vals-liðið fram úr og vann að lokum nokkuð sannfærandi sigur.

„Við erum kannski of mikið að þreifa á liðum svona í byrjun leikja – hálf ragir. Sem betur fer er leikurinn 60 mínútur en ekki fimm. Við vorum ekki alveg nógu gíraðir í byrjun og þurfum að fara yfir það.“

Róbert Aron endaði með 6 mörk í leiknum líkt og Þorgils Jón Svölu Baldursson en þeir voru markahæstir Valsara. Róbert dró vagninn þegar Valur náði forskotinu í seinni hluta síðari hálfleiks. Samt sem áður var Róbert ekki nægilega sáttur með sinn leik.

„Nei eiginlega ekki. Það er margt sem ég þarf að bæta eins og staðsetningar og svo var ég hálf hægur í sókninni. Auðvitað er maður ógeðslega harður alltaf við sjálfan sig en það var smá vilji þarna með að láta vaða á þetta. Þetta er bara handbolti og þarf ekki alltaf að vera einhver geimvísindi.“

Hluti þeirra stuðningsmanna Fram sem mættu á Hlíðarenda í kvöld reyndu að taka Róbert Aron úr jafnvægi í síðari hálfleik með því að baula á hann þegar hann fékk boltann. Það virtist þó bara efla hann.

„Já það hefur nú oftast verið þannig – mér finnst það mjög gaman.“

Liðin mætast aftur strax á fimmtudaginn, þá í Úlfarsárdal.

„Við erum vanir því að spila í úrslitakeppni þar sem er spilað þétt gegn sömu liðunum. Þar reyndar eru þetta auðvitað fimm leikja rimmur og þá þurfa liðin að lesa hvort annað en þetta er allt í lagi.“

Vals-liðið er enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar.

„Við förum náttúrulega í hvern einasta leik til þess að vinna hann. Það er alltaf krafan hérna og markmiðið okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert