Bauðst að fara til Ungverjalands áður en hann samdi við Stjörnuna

Hergeir Grímsson í leik með Stjörnunni í síðasta mánuði.
Hergeir Grímsson í leik með Stjörnunni í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hergeir Grímsson, leikmaður karlaliðs Stjörnunnar í handknattleik, samdi við félagið í sumar eftir að hafa leikið með uppeldisfélagi sínu, Selfossi, alla tíð þar á undan. Hann fékk þó einnig tilboð frá Ungverjalandi.

Í hlaðvarpi Seinni bylgjunnar var Hergeir spurður út í áhuga á sér í sumar.

„Það var eitthvað aðeins. Það voru einhver tilboð,“ sagði hann.

Hergeir var þá spurður hvort hann hafi íhugað einhver tilboð alvarlega, önnur en tilboð Stjörnunnar.

„Já, það var náttúrlega Selfoss.“

Hann greindi þá einnig frá því að hann hafi fengið tilboð erlendis frá í sumar.

„Það var eitthvað aðeins núna en það er ekki hvað sem er sem maður vill fara í. Það var eitt eða tvö félög en það varð aldrei að einhverju, það var bara einhver umræða.

Það var úti í Ungverjalandi, hjá liði þar. Það var ekkert lengi uppi á borði og svo kom Stjarnan upp og þá fór ég svolítið þangað með hausinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert