Þjálfari Fram í bann

Einar Jónsson er kominn í eins leiks bann.
Einar Jónsson er kominn í eins leiks bann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Jónsson, þjálfari karlaliðs Fram í handbolta, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann vegna ummæla sem hann lét falla í viðtali eftir leik Fram og FH í Olísdeildinni á dögunum.

Fram heimsótti FH þann 29. september í 4. umferðinni og lauk leiknum með 25:25-jafntefli. Fram gat skorað sigurmarkið úr aukakasti eftir að leiktíminn rann út, en Þorsteinn Gauti Hjálmarsson negldi boltanum í andlitið á Birgi Má Birgissyni.

„Gauti bombar í andlitið á honum, ég held hann þoli ekki þennan gaur þannig að ég skil það vel að hann hafi bombað í andlitið á honum,“ sagði Einar í samtali við Smára Jökul Jónsson á Vísi eftir leik.

„Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða nefndarinnar að ummælin feli í sér ósæmilega framkomu sem skaðað getur ímynd handknattleiksíþróttarinnar.

Aganefnd telur því ljóst að umrætt atvik falli undir 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál og efni standi til að láta þjálfarann sæta viðurlögum í máli þessu. Er Einar Jónsson því úrskurðaður í eins leiks bann,“ segir í úrskurði HSÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert