Þurfa að spila á Dalvík vegna árshátíðar í íþróttahöll Akureyrar

Ljósmynd/Szilvia Micheller

Heimaleikur Þórs frá Akureyri gegn Fram U í næstefstu deild karla í handknattleik, Grill 66-deildinni, á laugardaginn mun fara fram á Dalvík þar sem ekki er unnt að spila leikinn á heimavelli Þórs, íþróttahöll Akureyrar, vegna árshátíðar sem fer þar fram sama dag.

„Næsti „heimaleikur“ verður spilaður á Dalvík!!

Vegna skorts á aðstöðu á Akureyri var tekin ákvörðun hjá handknattleiksdeild Þórs í samstarfi við HSÍ, Dalvíkurbyggð og Íþróttafélagið Fram að spila næstkomandi laugardag leik Þórs og Fram U í Grill 66 deild karla á Dalvík.“

Þetta ritar Árni Rúnar Jóhannesson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, á Facebook-síðu deildarinnar.

Hann bendir á að Þór eigi einfaldlega ekki í önnur hús að venda þar sem íþróttahúsið í Síðuskóla sé ónothæft sem stendur.

„Vandamálum varðandi íþróttaaðstöðu boltaíþrótta innanhúss fjölgar ár frá ári. Íþróttahúsið í Síðuskóla er lokað vegna þess að framkvæmdir við endurnýjun á gólfi íþróttahússins klúðruðust all rækilega í ágúst og þarf að fara í miklar framkvæmdir til að gera gólfið hæft til íþróttaiðkunar.

Þar hefur má segja ekkert verið æft að neinu ráði síðan síðasta vetur. Það þarf varla að útskýra það fyrir einum né neinum hve mikil vinna aukalega leggst á alla sem að yngri flokkunum koma. Það þarf að koma fyrir fjölda barna annarsstaðar. Þá er spurt annarsstaðar hvar?“ hélt hann áfram.

Árshátíðir og ráðstefnur hafa forgang

„Þú kemur þeim hvergi fyrir vegna þess að það vantar eitt stykki íþróttahús í bæinn. Húsin eru öll þétt setin og varla lausan tíma að finna. Enn og aftur hafa árshátíðir og ráðstefnur forgang í íþróttahöll Akureyrar, „heimavöll“ meistaraflokka hand- og körfuknattleiksdeilda Þórs.

Stofnanir og fyrirtæki geta tekið heila helgi frá fyrir sig, allt uppí 4 daga, löngu áður en sérsamböndin gefa út leikjaniðurröðun vetrarins. Svo er bara sagt fyrstur kemur fyrstur fær

En þessa helgi átti eða á líka að vera körfuboltaleikur sem verður á föstudegi og 6. flokks mót í handbolta þar sem fleiri hundruð þátttakenda mæta. En höllin er upptekin vegna árshátíðar!!“ ritaði Árni Rúnar einnig.

Hann kvaðst veita því skilning að íþróttahöllin henti vel fyrir árshátíðir. „En á meðan það vantar eitt stykki íþróttahús í bæinn þá verða íþróttir og tómstundir að gjalda fyrir slíka viðburði hvað sem tautar og raular.“

Viðmót Dalvíkinga frábært

Árni Rúnar sagðist þá afskaplega þakklátur Dalvíkingum fyrir hjálpina við að koma leiknum á fót en að tilfærslan skapi um leið ný vandamál fyrir Þórsara.

„Það er ekki verið að handa okkur út á gaddinn, heldur 44 km norður til Dalvíkur. Viðmót Dalvíkinga gagnvart okkur í þessu máli hefur verið frábært, þeir hafa fært, breytt og bætt við, eftir okkar þörfum vegna þessa leiks.

Það er ekkert lítið verkefni að færa einn leik í annað bæjarfélag og núna er þessi vika undirlögð hjá sjálfboðaliðum Þórs að koma þessu á koppinn

En þetta dregur á eftir sér slóð annarra mála sem þarfnast úrlausna, 6. flokks mótið er á sama tíma og leikurinn og margir af okkar leikmönnum hefðu átt að vera dæma á því móti eða vinna við það. Núna þarf að leysa það einhvernveginn.“

Færslu Árna Rúnars má lesa í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert