Tvö Íslendingalið í riðlakeppnina en tvö úr leik

Teitur Örn Einarsson og félagar eru komnir í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Teitur Örn Einarsson og félagar eru komnir í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íslendingaliðin Flensburg frá Þýskalandi og Alpla Hard frá Austurríki tryggðu sér í kvöld sæti í riðlakeppni Evrópudeildar karla í handbolta.

Alpla Hard, sem Hannes Jón Jónsson þjálfar, vann Butel Skopje frá Norður-Makedóníu á útivelli í kvöld, 25:21. Lærisveinar Hannesar unnu fyrri leikinn 26:21 og einvígið samanlagt 51:42.

Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark fyrir Flensburg í 37:24-sigri á MMTS Kwidzyn frá Póllandi á heimavelli. Þýska liðið vann einvígið afar sannfærandi, en samanlagðar lokatölur urðu 76:49.

Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði sex mörk og Janus Daði Smárason þrjú fyrir norska liðið Kolstad í 33:31-heimasigri á Bidasoa frá Spáni. Spænska liðið vann fyrri leikinn með tveimur mörkum og réðust úrslitin því í vítakeppni, þar sem spænska liðið skoraði sex mörk gegn fimm.

Þá skoraði Ólafur Andrés Guðmundsson fjögur mörk fyrir svissneska liðið Amicitia Zürich í 34:30-heimasigri á Benidorm frá Spáni. Því miður fyrir Ólaf og félaga vann spænska liðið einvígið 64:58 eftir tíu marka heimasigur í fyrri leiknum.

Valur byrjar keppnina í ár í riðlakeppninni og getur því mætt liðunum sem tryggðu sig áfram í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert