Þetta er það sem við viljum standa fyrir

Elín Rósa Magnúsdóttir sækir að vörn Fram í leiknum í …
Elín Rósa Magnúsdóttir sækir að vörn Fram í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, var að vonum sáttur eftir að lið hans lagði Fram 27:22 í Olís deild kvenna á Hlíðarenda í kvöld.

„Númer eitt, tvö og þrjú er ég bara gríðarlega ánægður með að ná í tvö stig. Mér fannst þetta kaflaskiptur leikur, Fram var með yfirhöndina framan af og það var í raun og veru ótrúlegt að við værum yfir í hálfleik miðað við hvað varnarleikurinn okkar var slakur. Við komum í veg fyrir að þær væru að skora mikið úr hraðaupphlaupum, við vorum að spila nokkuð agað og vorum ekki að kasta boltanum illa frá okkur.

Ég er ósáttur með byrjunina í seinni hálfleik, við lítum illa út og það var eins og við værum ekki með neitt plan. Svo bara stígum við upp á síðustu mínútunum og sýnum mikinn karakter. Þetta var fagmannlega klárað hjá liðinu.“

Fram byrjaði báða hálfleikana betur en þegar leið á þá komst Valsliðið betur inn í leikinn og náði yfirhöndinni. 

„Það er óþægilegt að mæta þeim. Mér líður ekki vel þegar ég er að mæta liði þar sem ég þekki ekki leikmennina. Þarna voru tveir nýjir erlendir leikmenn sem mér fannst góðir, þetta eru góðir leikmenn sem styrkja Fram-liðið gríðarlega mikið.

Við fórum bara að spila örlítið betur þegar leið á. Varnarleikurinn var miklu betri í seinni hálfleik og Sara var sterk fyrir aftan. Við fáum framlag frá mörgum leikmönnum, við erum með breiðan og góðan hóp og náðum að rúlla þessu nokkuð vel. Fram-liðið er auðvitað gríðarlega öflugt en við sigldum að lokum nokkuð þægilegum sigri í höfn.

Við erum að fara í Evrópukeppni í nótt svo ég hafði smá áhyggjur af stelpunum, hvernig einbeitingin væri en mér fannst þær gera þetta faglega.

Eins og Ágúst segir sjálfur fékk Valur framlag frá mörgum leikmönnum í kvöld og svo steig vörnin og markvarslan upp í restina þegar mest var undir.

„Klárlega. Þetta er það sem við viljum standa fyrir. Ég pæli lítið í því hver er að skora mörkin, við viljum bara spila sem lið. Við sjáum sóknarlega í dag að Elín Rósa var algjörlega frábær en ég held hún hafi ekki skorað neitt rosalega mikið. Ég held hún hafi fiskað einhver fimm víti og átt sjö stoðsendingar. Þetta er það sem við viljum standa fyrir, góða liðsheild varnarlega og sóknarlega.“

Valur er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir líkt og Stjarnan.

„Auðvitað er ég bara ánægður með það. En ég hef sagt það áður að það er bara október og við erum enn að bæta okkur. Við erum með nýja leikmenn og einhverja sem fóru svo það tekur tíma að fínpússa þetta allt saman. Við erum búin að ná í sex stig og frammistaðan hefur á stórum köflum verið góð en það eru alltaf fullt af hlutum sem má bæta og við verðum bara að vinna í þeim. Nú förum við bara til Slóvakíu og spilum tvo Evrópuleiki, það verður gaman að mæla sig við alvöru lið eins og liðin í Slóvakíu.“

Ágúst Þór Jóhannsson.
Ágúst Þór Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert