Magnaður lokakafli tryggði Val sigur í stórleiknum

Thea Imani Sturludóttir sækir að vörn Fram í kvöld.
Thea Imani Sturludóttir sækir að vörn Fram í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur er með fullt hús stiga á toppi Olís deildar kvenna í handbolta eftir 27:22-sigur á Fram í einum af stórleikjum tímabilsins á Hlíðarenda í kvöld.

Fram byrjaði leikinn betur og náði fjögurra marka forystu eftir 13 mínútna leik. Þá tók Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals leikhlé og eftir það snerist leikurinn algjörlega við. Varnarleikur Vals snarbatnaði og Fram-konur voru í miklum vandræðum sóknarlega þar sem tapaðir boltar og vondar ákvarðanir voru einkennandi. Valsliðið gekk á lagið sóknarlega og jafnaði leikinn fljótlega. Þegar liðin gengu svo til búningsherbergja var staðan 15:12, heimakonum í Val í vil.

Fram-liðið kom þó af gríðarlegum krafti út í seinni hálfleikinn og var í raun bara eitt lið á vellinum lengi vel. Það tók liðið ekki nema nokkrar mínútur að jafna og þegar um 10 mínútur voru liðnar var staðan 18:16 fyrir Fram. Valur hafði þá ekki skorað nema eitt mark en varnarleikur Fram var gífurlega öflugur. Þá rankaði Valsliðið þó við sér á nýan leik og bætti fyrst og fremst varnarleikinn.

Þegar um 10 mínútur voru eftir skellti Valsliðið svo algjörlega í lás en Fram skoraði ekki mark frá 49. mínútu og þar til 5 sekúndur voru eftir af leiknum. Þar af leiðandi vann Valur að lokum nokkuð sannfærandi sigur, 27:22, þrátt fyrir að lengi vel hafi mikið jafnræði verið meðal liðanna.

Thea Imani Sturludóttir var markahæst í liði Vals með 6 mörk og þær Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Mariam Eradze og Hildigunnur Einarsdóttir komu næstar með 4 hver. Sara Sif Helgadóttir átti skínandi fínan leik í marki Vals en hún varði 15 skot.

Hjá Fram voru þær Madeleine Lindholm, Perla Ruth Ásgeirsdóttir og Steinunn Björnsdóttir markahæstar með 5 mörk hver. Hafdís Renötudóttir varði 11 skot í marki Fram.

Valur er því með 6 stig á toppi deildarinnar eftir 3 leiki líkt og Stjarnan. Fram er með 2 stig og er því strax komið eftir á í toppbaráttunni.

Valur 27:22 Fram opna loka
60. mín. Fram tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert