Ætlum ekki að vera neitt fallbyssufóður

Róbert Aron Hostert er klár í átökin í Evrópudeildinni.
Róbert Aron Hostert er klár í átökin í Evrópudeildinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fengum held ég stærsta liðið í þessu, Flensburg,“ sagði Róbert Aron Hostert, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir að dregið var í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta í dag.

Valur er í B-riðli ásamt Aix frá Frakklandi, Svíþjóðarmeisturum Ystad, þýska stórliðinu Flensburg, Benedorm frá Spáni og FTC Búdapest frá Ungverjalandi.

„Auðvitað eru mörg góð lið í þessum riðli. Þau geta öll eitthvað í handbolta. Þetta verður ógeðslega gaman og við erum fullir tilhlökkunar. Mér sýndist þetta líka vera þægileg ferðalög. Við mætum svo Íslendingaliðum og bara hörkuliðum. Þetta verður geggjað,“ bætti hann við.

En hvernig metur Róbert möguleika Vals í riðlinum, þar sem fjögur lið af sex fara áfram?

Valsmenn eru ríkjandi Íslandsmeistarar.
Valsmenn eru ríkjandi Íslandsmeistarar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það er erfitt að segja. Við ætlum ekki að vera neitt fallbyssufóður eða fara bara til að hafa gaman. Við ætlum að keppa og gera okkar besta. Það komast fjögur lið upp úr riðlinum og við ætlum að reyna það. Við gerðum okkur samt grein fyrir því að þetta verður gríðarlega erfitt.“

Stuðningsmenn Vals söfnuðust saman í Fjósinu á Hlíðarenda til að fylgjast með drættinum. Þeir fögnuðu þegar ljóst var að Valur og Benedorm voru saman í riðli. Róbert á von á því að stuðningsmenn fari í hópferðir á leikina.

„Þetta eru skemmtileg lönd og staðir og vonandi fáum við fullt af liði með okkur. Þetta er geggjað. Það er langt síðan íslenskt lið var í þessari stöðu. Þetta er mjög stórt fyrir íslenskan handbolta, fyrir Val og fyrir okkur,“ sagði Róbert Aron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert