Erum að fara að spila við bestu lið heims

Snorri Steinn Guðjónsson er spenntur fyrir komandi leikjum í Evrópudeildinni.
Snorri Steinn Guðjónsson er spenntur fyrir komandi leikjum í Evrópudeildinni. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er mjög sáttur,“ var það fyrsta sem Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta, sagði við mbl.is um B-riðil Valsmanna í Evrópudeildinni.

Valsmenn drógust í riðil með Aix frá Frakklandi, Svíþjóðarmeisturum Ystad, þýska stórliðinu Flensburg, Benedorm frá Spáni og FTC Búdapest frá Ungverjalandi.

„Þetta er góður dráttur þegar kemur að handboltanum og ferðalögum. Það er hægt að fara í hópferðir á þessa leiki. Þetta eru allt skemmtilegar ferðir til að fara í, en ef ég fengi persónulega að velja færi ég til Suður-Frakklands.

Það er stórkostlegt að vera þar og ég átti heima rétt hjá,“ sagði Snorri, sem lauk atvinnumannsferlinum með Nimes í suðurhluta Frakklands. 

Eins og gefur að skilja hafði þjálfarinn meiri áhuga á liðunum sem Valur mætir, en ferðalögum liðsins.

„Ég er í þessu í öðrum erindagjörðum. Ég er þjálfari og verð að horfa á þetta út frá því. Við fengum líka allan pakkann þar. Við erum að fara að spila við bestu lið í heiminum en líka liðum sem við getum vonandi staðið í.

Snorri Steinn Guðjónsson lék með Nimes í Suður-Frakklandi.
Snorri Steinn Guðjónsson lék með Nimes í Suður-Frakklandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir okkur snýst þetta um að standa í lappirnar og geta eitthvað í leikjunum. Við þurfum að einbeita okkur að því og finna leiðir til þess að vera ekki fallbyssufóður. Það segir sig sjálft að við erum ekki sigurstranglegra liðið þegar við förum til Flensburgar eða Frakklands en markmiðið okkar er að fara upp úr riðlinum. Það er erfitt en maður verður að setja sér markmið í svona keppni,“ sagði Snorri.

Fjögur af sex liðum riðilsins fara áfram í útsláttarkeppnina, en hvernig metur Snorri möguleikana á að Valur verði eitt þeirra liða?

„Það er erfitt að segja. Það eru mjög sterkir leikmenn í þessu liðum. Ég veit ekki líkurnar. Kannski eru þær minni en meiri. Það verður samt skemmtilegt fyrir handboltann á Íslandi að sjá hvar við stöndum á móti sænsku meisturunum og liði í Ungverjalandi. Við þurfum að spýta í lófana.“

Snorri er spenntur að fá liðin í riðlinum í heimsókn á Hlíðarenda og vonast til að fólk mæti vel, sérstaklega á móti stórliðum eins og Flensburg og Aix. 

Valur mætti þýska stórliðinu Lemgo á síðasta tímabili er Bjarki …
Valur mætti þýska stórliðinu Lemgo á síðasta tímabili er Bjarki Már Elísson lék með liðinu. mbl.is/Unnur Karen

„Það væru gríðarleg vonbrigði ef það væri ekki troðfullt þegar við mætum Flensburg og það sama á við móti Aix. Það er hægt að segja það sama um flesta þessa leiki. Þetta er spennandi fyrir handboltaáhugafólk og Valsara. Þetta er ekki daglegt brauð eða sjálfgefið. Það er ólíklegt að þetta verði aftur á næsta ári. Það má ekki taka þessu sem sjálfsögðum hlut. Við ætlum að gera þetta vel og náum vonandi að fylla höllina.“

Snorri segir leikmenn Valsliðsins ekki endilega gera sér grein fyrir hversu stórt það er að félagið sé að taka þátt í þessu ævintýri.

„Ég er ekki viss um að leikmenn geri sér nægilega mikla grein fyrir því. Þetta eru forréttindi. Að gera þetta með íslensku liði er langt frá því að vera sjálfgefið. Þetta er stór gluggi fyrir alla og leikmenn verða að reyna að njóta þess að vera með í þessu. Það geta komið skellir, en þá þurfa menn að vinna sig upp úr því. Það er að sama skapi mikill skóli,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert