Í dag látum við labba yfir okkur

Patrekur Jóhannesson
Patrekur Jóhannesson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrstu 20 var þetta fínn leikur, við komum vel inn í þetta og vorum beittir. Þeir keyrðu vel á okkur sem við vissum svo sem, við vorum flottir fyrstu 20, leikurinn í jafnvægi. Síðan erum við hrikalega slappir í seinni hálfleik,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is. Það er hárrétt hjá honum, Stjörnumenn voru ekki góðir á köflum í síðari hálfleik og enduðu á að tapa leiknum 36:27.

„Munurinn var mikill á markvörslunni, við erum með tvo bolta varða í seinni og í heildina með sex á meðan Petar ver 21 í heildina. Munurinn var einnig að Eyjamenn voru sterkir í einn á einn stöðunni, Elmar tætti mikið sem kom okkur ekki á óvart, Rúnar með sinn kraft og Arnór sem við höfum oft átt í erfiðleikum með. Þetta var svekkjandi því leikurinn var fínn framan af en við gefum algjörlega eftir og ég er mjög óánægður með það.“

Stjörnumenn fengu mikið af færum úr hornunum í byrjun leiks þegar þeir leiddu en Eyjamenn náðu síðan að loka aðeins á það.

„Hjálmtýr var að spila vel, það er ljósi punkturinn að hann var virkilega góður. Þeir lokuðu betur á það en skotin okkar að utan voru mörg hver slöpp, ég tek ekkert af Petar að hann varði vel. Hann er oft upp og niður en þegar hann er heitur er hann virkilega góður eins og hann var í dag.

Ég get samt ekkert fegrað þetta, Eyjamenn voru bara sterkari en við eftir þessar 20 mínútur. Þeir voru miklu betri og löbbuðu eiginlega yfir okkur, það var sama hvað við vorum að reyna, 6-0, 5-1 eða 5+1, þeir gerðu þetta vel. Þeir spila ekki flókið og leggja upp mikið með einstaklingsframtak en eru samt agaðir líka svo þeir voru bara miklu betri en við.“

Hjá Stjörnunni vantaði sterka leikmenn, Arnór Frey Stefánsson, Arnar Frey Ársælsson og Gunnar Stein Jónsson, svo einhverjir séu nefndir. Það gerði líklega það að verkum að þeir gátu ekki rúllað jafn vel liðinu og þeir hefðu viljað. Patrekur vill ekki nota það sem afsökun samt.

„Það er engin afsökun, ég var með alveg nógu marga leikmenn. Við þurfum bara að gera betur, það eru fimm leikir búnir og við höfum spilað mjög vel á köflum á móti FH og Haukum, að hluta til á móti Fram. Þegar við verðum lélegir verðum við svaðalega lélegir og þurfum meiri stöðugleika í þetta. Ég veit að liðið getur spilað hörku handbolta en í dag látum við labba yfir okkur og það finnst mér ekki í lagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert