Það kveikir í öllum

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Alexander Örn Júlíusson í leiknum í …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Alexander Örn Júlíusson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

„Nú náði ég að nýta þessi færi betur,“ sagði Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Fram, í samtali við mbl.is eftir 37:34 sigur á Val í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld. Þorsteinn setti tíu mörk og var magnaður í liði Framara í Úlfarsárdalnum. 

Síðastliðinn mánudag tapaði Fram 27:34 fyrir Val á Hlíðarenda. Það var mikið meiri orka í Frömurum í dag sem vörðust og sóttu betur. 

„Þetta var þokkalega heilsteyptur leikur, við minnkuðum vonda kaflann og náðum að byggja gott forskot sem var lykilinn að þessu. Því þótt að það kom slæmur kafli þá vorum við ennþá tveimur til þremur mörkum yfir og þá líður okkur vel. Pressan var svolítið á þeim, þeir hafa verið yfir í öllum leikjunum á tímabilinu, þannig það var kannski nýtt fyrir þá líka þannig það var flott að vinna þennan leik.“ 

Náði að nýta færin betur

Eins og áður kom fram var Þorsteinn magnaður í leiknum, hann var sáttur með sína eigin frammistöðu og telur hann hafa átt þetta inni.

„Ég var mjög ánægður með mína frammistöðu, ég var að fá flott færi og maður setur alltaf pressu á sjálfan sig að vera með betri nýtingu. ég er búinn að vera með slæma nýtingu í fyrstu leikjunum og nú náði maður að nýta þessi færi aðeins betur.“

Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram, var í stuði í leiknum og varði ótal mörg skot. Þorsteinn var sáttur með samherja sinn. 

„Það er klárlega gott að hafa Lárus í svona gír. Þetta voru líka alvöru vörslur, stemmnings vörslur sem kveikir í öllum.“

Fram er í þriðja sæti eftir sigurinn í dag með átta stig, jafnmörg og ÍBV en verri marktölu, Þorsteinn er sáttur með þessa byrjun og spenntur fyrir framhaldinu. Næsti leikur Fram er eftir landsleikjahlé en þá mætir liðið Gróttu á Seltjarnarnesi.

„Já, þetta byrjar bara vel. Við þurfum bara að halda áfram því sem við erum að gera. Það er líka fínt að fá pásu núna, menn verða alltaf smá laskaðir svo núna geta þeir aðeins jafnað sig á því sem er á hrjá þá og vonandi mætum við aftur ferskir til leiks,“ sagði Þorsteinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert