Ótrúlegur lokakafli Íslendingaliðsins

Ágúst Elí Björgvinsson átti góðan leik fyrir Ribe-Esbjerg.
Ágúst Elí Björgvinsson átti góðan leik fyrir Ribe-Esbjerg. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ribe-Esbjerg nældi í eitt stig með því að ná ótrúlegu 31:31-jafntefli á heimavelli gegn Bjerringbro-Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Mads Andersen kom Bjerringbro-Silkeborg í 31:27 þegar fjórar mínútur voru til leiksloka og virtist vera að tryggja gestunum sigurinn.  

Allt kom hins vegar fyrir ekki því Ágúst Elí Björgvinsson fékk ekki á sig annað mark í marki Ribe-Esbjerg og heimamenn gerðu fjögur mörk á lokakaflanum, jöfnuðu og tryggðu sér eitt stig.

Elvar Ásgeirsson skoraði næstsíðasta mark Ribe-Esbjerg í leiknum og alls tvö mörk. Arnar Birkir Hálfdánarson komst ekki á blað hjá Ribe-Esbjerg. Ágúst Elí varði níu skot í markinu.

Ribe-Esbjerg er í sjötta sæti deildarinnar með átta stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert