Urðum að bregðast við með því að breyta um vörn

Rut Jónsdóttir sækir að vörn Ísraels í leiknum í dag.
Rut Jónsdóttir sækir að vörn Ísraels í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Ég myndi segja já og nei við því hvort þetta hafi verið eins og ég átti von á,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, sem skoraði eitt mark í góðum sigri kvennalandsliðs Íslands handbolta gegn Ísrael þegar liðin mættust í forkeppni HM kvenna að Ásvöllum í dag en stóð þeim mun betur í vörninni.

„Ég er mjög sátt við margt í okkar leik en við þurftum fyrri hálfleikinn til að finna hvernig Ísraelar spiluðu og hvernig við ætluðum að mæta þeim en heilt yfir er ég mjög sátt við okkar leik.  Þegar kom í seinni hálfleik voru við búnar að lesa aðeins leik þeirra og áttum auðveldara með vörn okkar eftir að vera smávegis basl í fyrri hálfleik.  

Við fengum mikið af mörkum á okkur í fyrri hálfleik og urðum að bregðast við því með því að breyta um vörn.  Við erum aðeins að vinna með að skipta um varnarleik svo við séum ekki bara í einu kerfi,“  sagði Rut og bjóst við að síðari leikurinn á morgun yrði ekki léttari.  

„Ég gæti trúað að það verði erfiðara að koma inn í síðari leikinn á morgun með svona forskot svo við verðum að vera einbeittar í þeim leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert