Verðum að vera tilbúin fyrir bardagann á morgun

Díana Dögg Magnúsdóttir sækir að vörn Ísraela á Ásvöllum í …
Díana Dögg Magnúsdóttir sækir að vörn Ísraela á Ásvöllum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er alveg sáttur heilt yfir með átta marka sigur, sem er ágætis veganesti inn í morgundaginn en verðum að vera tilbúin fyrir bardagann, sem bíður okkar á morgun,“   sagði Arnar Pétursson þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta að loknum 34:26 sigri á Ísrael þegar liðin mættust í fyrri umspilsleik liðanna forkeppni fyrir heimsmeistaramótið í handknattleik að Ásvöllum í dag. 

Ísland var með tök á leiknum en missti forskotið niður í eitt mark, 15:14, í fyrri hálfleik, sem þjálfarinn sagði óþarft að gera.  „Það var kafli í fyrri hálfleik þar sem við hleyptum þeim aftur inn í leikinn og það var jafnvel óþarfi að gera það en við svöruðum því í seinni hálfleik.  Við erum með kafla í leiknum þar sem við erum ekki eins grimm og ég vil að liðið sé í vörninni þegar við hleypum þeim í skot sem eru eiginlega of auðveld en lengst af erum við standa þetta bara ágætlega. 

Ég hefði heilt yfir viljað fá betri markvörslu hjá okkur en það kemur á morgun, ég er alveg sannfærður um það.   Við hefðum líka geta keyrt aðeins hraðar upp völlinn en ég er bara ánægður með þetta,“ sagði Arnar.

Seinni leikurinn er á morgun klukkan 15 að Ásvöllum og eins í dag er frítt inná leikinn en þjálfarinn segir að það þurfi að skerpa á nokkrum hlutum.  „Við þurfum að nálgast leikinn á sunnudaginn af fullri alvöru og gera það almennilega því það verður að spila sextíu góðar mínútur vegna þess að annars verður okkur refsað. 

Það er fullt af leikmönnum hjá Ísrael með mikil gæði, til dæmis vorum við í bullandi vandræðum með örvhentu skyttuna þeirra og þurfum að mæta henni betur á morgun.  Við verðum því að vera í heildina mun ákveðnari í okkar varnarleik og jafnvel keyra meira upp völlinn.  Þurfum að skerpa á nokkrum hlutum,“  bætti þjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert