Enginn vandræðagangur hjá okkur

Sunna Jónsdóttir ræðir málin við mbl.is í leikslok.
Sunna Jónsdóttir ræðir málin við mbl.is í leikslok. mbl.is/Óttar Geirsson

„Mér fannst alls engin vandræðagangur hjá okkur og fyrirfram hefði ég allt þegið átta marka sigur í gær og sjö marka í dag svo ég er bara mjög sátt við úrslitin,“ sagði Sunna Jónsdóttir, sem að venju fór fyrir vörninni en skoraði líka þegar Ísland vann Ísrael 33:24 í seinni leik liðanna í forkeppni HM kvenna í handbolta á Ásvöllum í dag.

„Við skoðum leikinn á laugardaginn, hvað við mættum gera betur og það sem gerðum vel, halda svo áfram með það.  Auðvitað er alltaf eitthvað hægt að bæta en við vinnum hérna nokkuð sannfærandi öruggan sigur báða leikina.  Við erum fyrst og fremst að hugsa um okkur sjálfar, að þróa og bæta okkar leik.  Eigum fullt inni en gerðum líka fullt af hlutum vel svo ég held að við getum verið stoltar af þessu verkefni.“   

Hvorugt liðið vissi mikið um hitt svo upptaka af fyrri leiknum var grandskoðað og Sunna var jákvæð með framhaldið. „Við höfum verið saman í tvær vikur með fullt af góðum æfingum og fjóra landsleiki svo við erum bara jákvæðar, spenntar og bjartsýnar fyrir framhaldinu,“ bætti Sunna við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert