Nú þekkjum við þær en þær þekkja líka okkur

Perla Ruth Albertsdóttir.
Perla Ruth Albertsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mér finnst ótrúlega gott að gera út um þennan leik og það svona nokkuð örugglega í seinni hálfleik,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir eftir að Ísland vann Ísrael í fyrri umspilsleik liðanna í forkeppni HM kvenna að Ásvöllum í gær.

Liðin mætast aftur í dag á Ásvöllum en viðureign liðanna hefst klukkan 15 og er aðgangur ókeypis. Íslenska liðið vann leikinn í gær 34:26 og stendur því vel að vígi um að komast í umspilið um sæti á HM næsta vor. 

„Ég fann alveg að þar var mikið stress og spenna þegar við vissum varla hvað við vorum að fara út í, þær með nýja leikmenn og nýjan þjálfara, enda höfðum við ekki séð neitt nema ársgömul myndbrot.  Það sást á mistökum okkar í fyrri hálfleik að það var mikið stress og við vorum að missa boltann þegar það var mikið óöryggi en svo kom þetta.  Við léttum aðeins á leik okkar í seinni hálfleik og þá var þetta miklu öruggara hjá okkur og vonandi verðum við enn öruggari á morgun.“

Gestirnir byrjuðu betur, Ísland náði sér svo á strik en missti forystuna niður I eitt mark í fyrri hálfleik. Með öflugri byrjun í síðari hálfleik náði íslenska liðið svo að slíta Ísrael frá sér enda sagði þjálfari Íslands sínu liði að slaka aðeins á. 

„Þjálfarinn sagði okkur í hálfleik að slaka bara á og hafa aðeins meiri léttleika.  Við fórum aðeins yfir hvað þær væru að gera og svo fínstilltum við okkar leik, hvað við lögðum upp með að gera og gerðum það aðeins betur, náðum þannig að ná smá mun á liðin,“ sagði Perla en að nú séu liðin bæði búin að sjá við hverju er að búast fyrir seinni leikinn og aldrei að vita hvað gerist.  

„Við vitum nú hverjum við erum að fara mæta og það breytir ógeðslega miklu.  Við kunnum þá aðeins betur á leikmenn þeirra og vitum hvað við getum gert betur en á móti kemur að Ísraelar eru líka búnir að læra aðeins inná okkur svo þetta þýðir að við verðum að mæta hundrað prósent.  Ef við gerum það og spilum allar okkar leik þá hef ég fulla trú að við tökum þetta.“     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert