Skoraði fjögur í ótrúlegum 90 marka leik

Bjarki Már Elísson fagnar marki í leik með Veszprém.
Bjarki Már Elísson fagnar marki í leik með Veszprém. Ljósmynd/Eurohandball

Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik, lét ekki sitt eftir liggja þegar lið hans Veszprém vann ótrúlegan 50:40-sigur á Ferencváros í ungversku úrvalsdeildinni í kvöld.

Bjarki Már skoraði fjögur marka Veszprém en markahæstur í leiknum var hinn sænski Andreas Nilsson með 11 mörk fyrir liðið.

Ferencváros er í riðli með Íslands- og bikarmeisturum Vals í Evrópudeildinni og er greinilegt að leikir liðsins eru fjörugir þar sem 82 mörk voru skoruð í leik þeirra í síðasta mánuði þegar Valur vann 43:39.

90 mörk varð hins vegar niðurstaðan í kvöld, sem er ekki beint daglegt brauð í handbolta.

Veszprém er sem fyrr á toppi ungversku deildarinnar með fullt hús stiga, nú með 18 stig eftir níu leiki.

Ferencváros er í 6. sæti með 10 stig.

mbl.is