Þórir stýrði Noregi til sigurs á EM

Nora Mørk fagnar einu marka sinna í leiknum í kvöld.
Nora Mørk fagnar einu marka sinna í leiknum í kvöld. AFP/Jure Makovec

Noregur, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, vann Danmörku 27:25 í úrslitaleik Evrópumótsins í handbolta kvenna í Slóveníu í kvöld. 

Danmörk skoraði fyrstu tvö mörk leiksins og hélt forystunni allt þar til um sex mínútur voru til leiksloka. Þá komst Noregur yfir í fyrsta skipti í leiknum og sigldi mögnuðum sigri í höfn en norska liðið skoraði níu af síðustu tólf mörkum leiksins.

Nora Mørk dró vagninn í norska liðinu en hún endaði sem markahæsti leikmaður vallarins með átta mörk. Hjá Dönum var Louise Burgaard markahæst með 6 mörk. 

Er þetta annað Evrópumótið í röð sem Noregur vinnur en liðið er ríkjandi Evrópu- og heimsmeistari.

Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í kvöld.
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í kvöld. AFP/Jure Makovec
mbl.is