Þórir Evrópumeistari: „Liðið gefst aldrei upp“

Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í úrslitaleik EM 2022 í gærkvöldi.
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í úrslitaleik EM 2022 í gærkvöldi. AFP/Jure Makovec

Þórir Hergeirsson, þjálfari Evrópumeistara Noregs í handknattleik kvenna, segir að tiltrú leikmanna á hugmyndafræði liðsins og leikskipulagi hafi átt stærstan þátt í því að liðið hafi snúið taflinu við í frábærum 27:25-endurkomusigri þess á Danmörku í úrslitaleik EM 2022 í Ljúbljana í Slóveníu í gær.

Danmörk leiddi með þremur mörkum, 15:12, í leikhléi og náði fjögurra marka forystu, 22:18, um miðjan síðari hálfleikinn, áður en Noregur kom til baka á magnaðan hátt.

„Við erum með nokkrar vinnureglur. Við erum með nokkrar fastmótaðar reglur og svo eru nokkrar óskrifaðar reglur innan hópsins, sem eru samt með öllu bindandi,“ sagði Þórir í samtali við norska ríkismiðilinn NRK.

Í aðdraganda úrslitaleiksins bað hann hvern og einn leikmann sinn um að reyna að laga eitthvað eitt sem fór forgörðum í fyrri leik liðanna í milliriðlinum, þar sem Danmörk vann Noreg, 31:29, og tryggði sér þannig efsta sæti milliriðils 1.

„Við gerum þetta oft þegar við töpum leik, því þá er mjög auðvelt fyrir leikmenn að einblína á það sem þeir hefðu getað gert öðruvísi.

Við byrjum vanalega á einhverju sem leikmenn vita að sé auðvelt að laga í næsta leik. Athafnir í leiknum sem gætu þýtt mark skorað fyrir Noreg eða að koma í veg fyrir mark hjá andstæðingnum,“ bætti hann við.

Kraftmikið þegar margir leikmenn setja sér markmið

„Svo koma auðvitað til markmið. Það er mjög kraftmikið þegar margir leikmenn setja sér markmið og setja þau inn í liðið. Þá er fínt að byrja á þessum eina hlut hjá hverjum og einum og pirra sig ekki yfir öllu.

Það er enginn sem getur verið hér og sett sér markmið án þess að leggja sitt af mörkum fyrir liðið, það er óumflýjanlegt.

Af því leiðir að liðið gefst aldrei upp og leggur allt í sölurnar þar til flautað er til leiksloka,“ sagði Þórir einnig í samtali við NRK.

Hann hefur nú unnið til níu gullverðlauna á stórmótum með norska kvennalandsliðið, þar af fimm á Evrópumótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert