Eyjamenn unnu í Úlfarsárdal

Rúnar Kárason skoraði átta mörk fyrir ÍBV í kvöld.
Rúnar Kárason skoraði átta mörk fyrir ÍBV í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

ÍBV vann sterkan 30:29-sigur á Fram þegar liðin áttust við í Olísdeild karla í handknattleik í Framhúsinu í Úlfarsárdal í kvöld.

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með en eftir að ÍBV náði 7:6 forystu brugðust heimamenn í Fram vel við og náðu þriggja marka forystu, 11:8.

ÍBV tók þá einstaklega við sér og jafnaði metin í 12:12. Framarar skoruðu hins vegar næstu tvö mörk og leiddu því með tveimur mörkum, 14:12, í leikhléi.

Framan af í síðari hálfleik var Fram við stjórn og náði nokkrum sinnum fjögurra marka forskoti.

Eftir að Fram komst í 19:15 tók við frábær kafli Eyjamanna og voru þeir búnir að jafna metin í 22:22 þegar um 13 mínútur voru eftir og náðu svo forystunni, 23:22, skömmu síðar.

Í hönd fór æsispennandi lokakafli þar sem ÍBV vann að lokum frækinn eins marks sigur.

Fram fékk tækifæri til þess að jafna metin í lokasókn sinni en dæmdur var ruðningur á Breka Dagsson og rann leikklukkan svo sitt skeið.

Með sigrinum fór ÍBV upp í fimmta sæti deildarinnar en Fram heldur kyrru fyrir í því fjórða.

Elmar Erlingsson og Rúnar Kárason voru markahæstir í liði ÍBV, báðir með átta mörk.

Markahæstur í leiknum var hins vegar Reynir Þór Stefánsson með 11 mörk. Skammt undan var Luka Vukicevic með átta mörk.

Lárus Helgi Ólafsson varði 11 skot í marki Fram.

Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 11, Luka Vukicevic 8, Stefán Orri Arnalds 3, Stefán Darri Þórsson 2, Ívar Logi Styrmisson 2, Breki Dagsson 2, Ólafur Brim Stefánsson 1.

Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 11, Arnór Máni Daðason 0.

Mörk ÍBV: Elmar Erlingsson 8, Rúnar Kárason 8, Kári Kristján Kristjánsson 5, Janus Dam Djurhuus 3, Gabríel Martínez 3, Róbert Sigurðarson 2, Arnór Viðarsson 1.

Varin skot: Jóhannes Esra Ingólfsson 4, Björn Viðar Björnsson 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert