Mögnuð byrjun Rúnars með Leipzig

Leipzig hefur unnið alla fjóra deildarleiki sína undir stjórn Rúnars …
Leipzig hefur unnið alla fjóra deildarleiki sína undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þýska 1. deildarliðið Leipzig í handknattleik karla hefur leikið frábærlega eftir að Rúnar Sigtryggsson tók við stjórnartaumunum hjá liðinu í byrjun mánaðarins.

Þegar Rúnar tók við var Leipzig með einungis 4 stig eftir tíu leiki, einn sigur, tvö jafntefli og sjö töp, og sat í 17. og næstneðsta sæti deildarinnar, sem er fallsæti.

Eftir að hann tók við hefur hins vegar allt annað verið að sjá til liðsins þar sem liðið hefur leikið fjóra leiki og unnið þá alla.

Þar með er Leipzig, þar sem landsliðsmaðurinn Viggó Kristjánsson er lykilmaður, búið að spyrna sér langt frá botninum og er nú um miðja deild með 12 stig í 11. sæti, sex stigum fyrir ofan fallsæti og nálægt því að koma sér í efri hlutann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert