Gamla ljósmyndin: Óstöðvandi gegn Börsungum

Morgunblaðið/Jim Smart

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þegar stórlið Barcelona dróst á móti Haukum í 3. umferð EHF-keppni karla í handknattleik haustið 2001 bjuggust Katalónarnir væntanlega ekki við því að íslenskur leikmaður, sem aldrei hafði leikið sem atvinnumaður, gæti reynst þeim óþægur ljár í þúfu. 

Barcelona komst reyndar áfram í keppninni á sannfærandi hátt með sigri í báðum leikjunum. 39:29 í Barcelona og 30:20 í Hafnarfirði. 

Örvhenta skyttan Halldór Ingólfsson stal þó gersamlega senunni og skoraði 26 mörk í leikjunum tveimur sem mögnuð frammistaða gegn svo sterku liði. Barcelona hafði unnið Evrópukeppni meistaraliða eða Meistaradeildina fimm ár í röð eða frá 1995 - 2000. Segir það mest um styrk liðsins sem Halldór fór svo illa með. 

Halldór skoraði 14 mörk í fyrri leiknum ytra og fylgdi því eftir með 12 mörkum í heimaleiknum. Halldór setti met í fyrri leiknum því aldrei fyrr hafði leikmaður náð að skora 14 mörk gegn Barcelona í Evrópuleik. 

Á meðfylgjandi mynd reynir Halldór að brjóta sér leið í gegnum vörn Barcelona í síðari leiknum á Ásvöllum sem þá var nýlegur heimavöllur hjá Haukum sem léku í íþróttahúsinu við Strandgötu til aldamótanna 2000. Jim Smart tók myndina og birtist hún í íþróttablaði Morgunblaðsins 20. nóvember árið 2001 ásamt veglegri umfjöllun um leikinn. 

„Ingólfsson (Halldór) er stórgóður leikmaður og við áttum í miklu basli með að stöðva hann. Bæði er hann góður skotmaður og sérlega lunkinn að finna smugur á vörninni,“ sagði hinn þrautreyndi þjálfari Barcelona, Valero Rivera, í samtali við Guðmund Hilmarsson blaðamann Morgunblaðsins. 

Viggó Sigurðsson, þjálfari Hauka, furðaði sig jafnframt á því í spjalli við Morgunblaðið að Halldór væri ekki í íslenska landsliðinu. „Halldór er einfaldlega að spila leiki lífsins og hann hlýtur að vera blindur sá landsliðsþjálfari sem sleppir því að velja hann í landsliðið. Ég horfði á Þorbjörn Jensson sleppa því að velja Halldór í landsliðið á einhvern óskiljanlegan hátt og Guðmundur Guðmundsson valdi hann ekki í hóp sinn á dögunum. Ég varð mjög hissa á því og ég veit ekki hvað menn þurfa að sýna og sanna til þess að fá sæti í landsliðinu. Halldór hlýtur að hafa stimplað sig inn í landsliðið með þessari frábæru frammistöðu í leikjunum við Barcelona,“ sagði Viggó. 

Svo fór að tveimur mánuðum síðar fór Halldór með íslenska landsliðinu á EM í Svíþjóð 2002 þar sem liðið lék um bronsverðlaun. 

Karlalið Vals leikur um þessar mundir í Evrópudeildinni og vakti leikur liðsins gegn Flensburg mikla athygli á dögunum en Valur hefur unnið fyrstu tvo leikina af þremur í riðlinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert