Mikilvægur sigur Hauka

Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði níu mörk fyrir Hauka í kvöld.
Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði níu mörk fyrir Hauka í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar unnu sterkan 30:26-sigur á ÍR þegar liðin áttust við í fallslag í Olísdeild karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.

Haukar stýrðu ferðinni stærstan hluta leiksins en þó var munurinn aðeins eitt mark í upphafi síðari hálfleiks.

Heimamenn náðu þó fljótt aftur vopnum sínum og hleyptu ÍR ekki of nálægt sér það sem eftir lifði leiks.

Niðurstaðan því að lokum góður fjögurra marka sigur Hauka.

Guðmundur Bragi Ástþórsson fór fyrir Haukum er hann skoraði níu mörk og gaf sex stoðsendingar að auki. Næstur á eftir honum var Andri Már Rúnarsson með sex mörk.

Matas Pranckevicius varði níu skot í marki Hafnarfjarðarliðsins.

Markahæstir hjá ÍR voru Arnar Freyr Guðmundsson og Dagur Sverrir Kristjánsson, báðir með sex mörk.

Ólafur Rafn Gíslason varði þá 11 skot í marki liðsins.

Með sigrinum spyrntu Haukar sér nokkuð frá fallbaráttunni enda komnir upp í áttunda sæti með 9 stig, fjórum stigum fyrir ofan ÍR í 11. og næstneðsta sæti.

Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 9, Andri Már Rúnarsson 6, Stefán Rafn Sigurmannsson 5, Heimir Óli Heimisson 5, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Össur Haraldsson 1, Adam Haukur Baumruk 1, Geir Guðmundsson 1.

Varin skot: Matas Pranckevicius 9, Magnús Gunnar Karlsson 5.

Mörk ÍR: Arnar Freyr Guðmundsson 6, Dagur Sverrir Kristjánsson 6, Viktor Sigurðsson 5, Sveinn Brynjar Agnarsson 4, Úlfur Gunnar Kjartansson 3, Bjarki Steinn Þórisson 1, Friðrik Hólm Jónsson 1.

Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 11.

mbl.is