Dramatískur sigur Benidorm – góð úrslit fyrir Val

Ramiro Martínez sækir að marki Ferencváros í dag.
Ramiro Martínez sækir að marki Ferencváros í dag. Ljósmynd/Eurohandball

Benidorm frá Spáni hafði betur gegn Ferencváros frá Ungverjalandi er liðin mættust í B-riðli Evrópudeildar karla í handbolta í dag, 33:32.

Úrslitin eru góð fyrir Íslands- og bikarmeistara Vals, sem eru í sama riðli. Ferencváros og Benidorm eru bæði með tvö stig, eftir fjóra leiki. Valur er með fjögur stig eftir þrjá leiki. Sigrar Vals til þessa hafa komið á móti Ferencváros og Benidorm.

Ungverska liðið var í góðum málum þegar tíu mínútu voru til leiksloka og með fjögurra marka forskot, 30:26. Benidorm skoraði hins vegar sjö af síðustu níu mörkunum, þar af þrjú síðustu mörkin. Iván martínez skoraði sigurmarkið á lokasekúndunni.

Ivan Nikcevic var markahæstur hjá Benidorm með níu mörk. Dávid Debreczeni og Máte Jánoskúti gerðu fimm hvor fyrir Ferencváros.

Valur mætir Aix frá Frakklandi í sama riðli klukkan 19:45.

mbl.is