Óvænt úrslit í riðli Vals – Óðinn hetja Kadetten

Philip Stenmalm sækir að marki Flensburg í kvöld.
Philip Stenmalm sækir að marki Flensburg í kvöld. Ljósmynd/EHF

Sænsku meistararnir í Ystad unnu í kvöld óvæntan 30:26-sigur á Flensburg í B-riðli Evrópudeildar karla í handbolta. Ystad hefur nú unnið tvo sigra, en tapið var það fyrsta hjá Flensburg.

Ystad náði forskotinu snemma leiks og var staðan 7:3 eftir tíu mínútur. Þrátt fyrir áhlaup inn á milli tókst Flensburg ekki að jafna eftir það. Tveimur mörkum munaði þegar skammt var eftir, 28:26, en Ystad skoraði tvö síðustu mörkin.

Jonathan Svensson skoraði átta mörk fyrir Ystad og gamla kempan Kim Anderson, sem er orðinn fertugur, gerði sex. Emil Jakobsen, Jim Gottfridsson og Johan Hansen skoruðu fjögur mörk hver fyrir Flensburg. Teitur Örn Einarsson skoraði ekki fyrir þýska liðið.

Þrátt fyrir tapið er Flensburg í toppsæti riðilsins með sex stig. Valur, Aix og Ystad eru öll með fjögur, en Valur og Aix mætast klukkan 19:45 í slag um að jafna Flensburg á stigum.

Í A-riðli hafði Íslendingaliðið Kadetten frá Sviss betur gegn Benfica frá Portúgal á heimavelli, 26:25. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sigurmark Kadetten úr víti á lokasekúndunum. Óðinn skoraði þrjú mörk í leiknum. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar liðið. Kadetten er í þriðja sæti riðilsins með sex stig.

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sigurmarkið.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sigurmarkið. mbl.is/Hari
mbl.is