Viktor fór á kostum gegn Aroni – 13 íslensk mörk í Porto

Viktor Gísli Hallgrímsson átti góðan leik á móti Aroni Pálmarssyni …
Viktor Gísli Hallgrímsson átti góðan leik á móti Aroni Pálmarssyni og félögum. Ljósmynd/EHF

Nantes hafði betur á heimavelli gegn Aalborg í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld í Íslendingaslag, 35:28.

Þegar skammt var eftir var staðan 30:28, Nantes í vil. Franska liðið skoraði fimm síðustu mörkin og vann að lokum sjö marka sigur.

Viktor Gísli Hallgrímsson lék afar vel í markinu hjá Nantes og varði 14 skot, þar af tvö vítaköst. Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk fyrir Aalborg. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari danska liðsins.

Nanes er í þriðja sæti B-riðils með tólf stig, fimm stigum á undan Aalborg sem er í sætinu fyrir neðan.

Þýskalandsmeistararnir í Magdeburg máttu sætta sig við 31:31-jafntefli á útivelli gegn Porto frá Portúgal. Magdeburg var með 16:12 forskot í hálfleik en portúgölsku meistararnir voru sterkari í seinni hálfleik.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá Magdeburg með sjö mörk. Þar á eftir kom Gísli Þorgeir Kristjánsson með sex. Magdeburg er í þriðja sæti A-riðils með tíu stig.

mbl.is