Þróun úrslitaleiksins engin tilviljun

Þórir Hergeirsson segir norsku leikmönnunum til í úrslitaleiknum gegn Danmörku.
Þórir Hergeirsson segir norsku leikmönnunum til í úrslitaleiknum gegn Danmörku. AFP/Jure Makovec

Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu í handknattleik til sigurs á EM 2022 í Slóveníu og Norður-Makedóníu þegar liðið lagði Danmörku að velli, 27:25, í frábærum úrslitaleik í síðasta mánuði.

Danmörk var með forystuna stærstan hluta leiksins en með frábærri endurkomu tókst Noregi að knýja fram sigur undir lokin.

Þar með var fimmti Evrópumeistaratitill Noregs undir stjórn Þóris í höfn og níundu gullverðlaunin á stórmóti, sem gerir hann að sigursælasta landsliðsþjálfara handboltasögunnar.

„Það verður nú að skoða þetta allt í svolítið stærra samhengi. Við erum búin að spila mikið við Dani síðustu 2-3 ár. Danir hafa verið í mikilli sókn og verið að bæta sig mikið.

Þeir eru komnir með hörkulið, lið sem er búið að spila saman meira og minna óbreytt á stórmótum síðustu fjögur árin,“ sagði Þórir í samtali við mbl.is er hann var spurður hver hafi verið lykillinn að magnaðri endurkomu Noregs í úrslitaleiknum.

Spiluðum illa sóknarlega í fyrri hálfleik

„Við erum búin að spila marga jafna leiki við Dani síðan 2019. Við höfum oft verið undir í þessum leikjum í fyrri hálfleik og svolítið inn í seinni hálfleik þannig að það var í sjálfu sér ekkert nýtt fyrir okkur og ekkert stress fólgið í því.

En okkur fannst við vera að spila mjög illa sóknarlega í fyrri hálfleik, það var kannski aðalástæðan fyrir því að Danir voru þremur mörkum yfir í hálfleik. Svo í seinni hálfleik fannst mér við í rauninni leysa það.

Við vorum að spila okkur í góð færi, varnarleikurinn var góður, markvarslan var mjög góð. Þetta var eiginlega bara spurning um hvenær við færum að setja þessi færi okkar í markið í seinni hálfleik. Svo datt þetta inn þegar það voru svona 10-12 mínútur eftir.

Það var eiginlega aldrei neitt stress í því, það var meira svona að reyna að lokka fram meiri nákvæmni í skotnýtingum. Þetta var ekki að stressa fólk, leikmenn voru kannski meira pirraðir, þetta var að pirra fólk,“ hélt hann áfram.

Nánar er rætt við Þóri á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is