Brekkan brött fyrir ÍBV eftir fyrri leikinn

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir. mbl.is/Óttar Geirsson

ÍBV tapaði 30:23 fyrir Madeira í fyrri leik liðanna í þriðju umferð Evrópubikars kvenna í handbolta í kvöld. Leikið var í bænum Funchal á eyjunni Madeira sem tilheyrir Portúgal.

Ljóst var fyrir leik að Madeira-liðið væri mjög öflugt. Liðið er með fullt hús stiga í portúgölsku deildinni eftir að hafa spilað fimm leiki. Liðið er þó einungis í fjórða sæti en liðin í kring hafa öll spilað fleiri leiki.

Madeira-liðið náði snemma upp nokkurra marka forystu og hélt henni fram að hálfleik en þá var staðan 16:11. Eyjakonur náðu mest að minnka muninn í fjögur mörk í síðari hálfleik en góður lokakafli portúgalska liðsins varð til þess að sigurinn varð stærri en hann hefði þurft að vera.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst ÍBV í leiknum en hún skoraði sjö mörk. Alla markaskorara liðsins má sjá hér að neðan.

Liðin mætast í síðari leik einvígisins á sama tíma á morgun. Þurfa Eyjakonur að sýna sínar allra bestu hliðar ætli þær sér að komast áfram úr einvíginu.

Mörk ÍBV: Hrafnhildur Þrastardóttir 7, Elísa Elíasdóttir 4, Sunna Jónsdóttir 3, Marija Jovanovic 2, Ingibjörg Olsen 2, Harpa Valey Gylfadóttir 2, Ásta Björt Júlíusdóttir 1, Birna Berg Haraldsdóttir 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert