Brekkan brött fyrir ÍBV eftir fyrri leikinn

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir. mbl.is/Óttar Geirsson

ÍBV tapaði 30:23 fyrir Madeira í fyrri leik liðanna í þriðju umferð Evrópubikars kvenna í handbolta í kvöld. Leikið var í bænum Funchal á eyjunni Madeira sem tilheyrir Portúgal.

Ljóst var fyrir leik að Madeira-liðið væri mjög öflugt. Liðið er með fullt hús stiga í portúgölsku deildinni eftir að hafa spilað fimm leiki. Liðið er þó einungis í fjórða sæti en liðin í kring hafa öll spilað fleiri leiki.

Madeira-liðið náði snemma upp nokkurra marka forystu og hélt henni fram að hálfleik en þá var staðan 16:11. Eyjakonur náðu mest að minnka muninn í fjögur mörk í síðari hálfleik en góður lokakafli portúgalska liðsins varð til þess að sigurinn varð stærri en hann hefði þurft að vera.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst ÍBV í leiknum en hún skoraði sjö mörk. Alla markaskorara liðsins má sjá hér að neðan.

Liðin mætast í síðari leik einvígisins á sama tíma á morgun. Þurfa Eyjakonur að sýna sínar allra bestu hliðar ætli þær sér að komast áfram úr einvíginu.

Mörk ÍBV: Hrafnhildur Þrastardóttir 7, Elísa Elíasdóttir 4, Sunna Jónsdóttir 3, Marija Jovanovic 2, Ingibjörg Olsen 2, Harpa Valey Gylfadóttir 2, Ásta Björt Júlíusdóttir 1, Birna Berg Haraldsdóttir 1.

mbl.is