Fjöður í hatt að vera sigursælastur

Þórir Hergeirsson er sigursælasti landsliðsþjálfari í sögu handboltans. Hefur hann …
Þórir Hergeirsson er sigursælasti landsliðsþjálfari í sögu handboltans. Hefur hann unnið níu gullverðlaun með Noregi á stórmótum. AFP/Jure Makovec

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, stýrði liðinu til fimmta Evrópumeistaratitilsins undir sinni stjórn í síðasta mánuði. Þá hafði Noregur betur gegn Danmörku, 27:25, í frábærum leik á EM 2022 sem fór fram í Slóveníu og Norður-Makedóníu. Undir stjórn Þóris hefur norska liðið unnið til níu gullverðlauna á stórmótum frá því hann tók við starfinu árið 2009.

„Þetta er alltaf einstakt í hvert skipti. Þetta er eitthvað sem maður verður ekkert vanur, maður tekur þetta ekkert sem gefið. Það er um að gera að reyna að njóta þess í eina viku.

Þetta er nú svolítið fyndið því í dag var ég á fundi þar sem var verið að undirbúa Ólympíuleikana í París 2024, fyrsti fundurinn með ólympíunefndinni, þannig að það er bara allt á fullu í að undirbúa það því Evrópugull gefur sæti á næstu Ólympíuleikum,“ sagði Þórir í samtali við Morgunblaðið á miðvikudag.

Endalaus eltingaleikur

Af gullverðlaununum níu eru fimm fyrir sigra á Evrópumótum, þrenn á heimsmeistaramótum og eitt á Ólympíuleikum. Þórir og norska liðið renna því hýru auga til annars ólympíugulls á næstu leikum.

„Jú, jú, þetta er náttúrlega endalaus eltingaleikur. Markið er sett hátt. Við tókum ólympíugull 2012 og síðan tókum við brons bæði 2016 og í fyrra í Tókýó. Það er alltaf metnaðurinn að vera með og slást alveg við toppinn, að reyna að láta drauminn rætast,“ sagði hann.

Þórir hefur starfað fyrir norska handknattleikssambandið um afar langt skeið, á þriðja áratug. Núverandi samningur hans við sambandið rennur út í lok ársins 2024.

Viðtalið má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert