Haukar sóttu tvö stig á Ísafjörð

Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði 14 mörk fyrir Hauka í dag.
Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði 14 mörk fyrir Hauka í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar unnu botnlið Harðar 43:37 á Ísafirði í Olís deild karla í handbolta í dag.

Hafnfirðingar byrjuðu leikinn betur og náðu snemma upp góðu forskoti. Það forskot hélst út nánast allan leikinn en þegar 10 mínútur voru eftir voru Haukar 10 mörkum yfir. Þá náði Hörður smá áhlaupi en það var einfaldlega of seint.

Endijs Kusners var markahæstur í liði Harðar með 10 mörk en markahæsti maður vallarins var Haukamaðurinn Guðmundur Bragi Ástþórsson en hann gerði heil 14 mörk.

Með sigrinum fara Haukar upp að hlið Selfoss en liðin eru nú bæði með 11 stig í 7.-8. sæti deildarinnar. Selfoss á þó leik til góða og getur komist tveimur stigum á undan á nýjan leik með sigri. Hörður er enn á botninum með einungis eitt stig.

Mörk Harðar: Endijs Kusners 10, Suguru Hikawa 6, Mikel Amilibia Aristi 5, Jón Ómar Gíslason 5, José Esteves Neto 3, Axel Sveinsson 2, Daníel Wale Adeleye 2, Victor Iturrino 2, Emmanuel Evangelista 1, Guilherme Andrade 1. 

Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 14, Andri Már Rúnarsson 8, Heimir Óli Heimisson 5, Stefán Rafn Sigurmannsson 4, Birkir Snær Steinsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Geir Guðmundsson 2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Atli Már Báruson 1, Össur Haraldsson 1. 

mbl.is