Hópurinn býr að reynslunni í Evrópubikarnum

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir í leik með ÍBV gegn Ionias frá …
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir í leik með ÍBV gegn Ionias frá Grikklandi í Evrópubikar kvenna fyrr í haust. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við vorum komnar hérna á leiðarenda í hádeginu í gær [í fyrradag] eftir rúman sólarhring á ferðalagi frá Vestmannaeyjum. Við komum í gær [í fyrradag] og tókum þá æfingu. Við tókum svo æfingu í hádeginu í dag [í gær]. Það fer vel um okkur og ferðalagið gekk vel.“

Þetta sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, leikmaður kvennaliðs ÍBV í handknattleik, sem mætir liði Madeira á Madeira-eyju undan ströndum Portúgals í tveimur leikjum í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins um helgina, í samtali við mbl.is.

Fyrri leikurinn, skráður heimaleikur ÍBV, fer fram klukkan 17 í dag og síðari leikurinn á sama tíma á morgun.

„Við erum virkilega spenntar fyrir þessu. Þetta er spennandi verkefni og gaman að fá að kljást við þetta lið. Við erum aðeins búnar að vera að skoða þær og þær líta bara vel út.

Það verður spennandi að fá að kljást við þær. Þær eru hraðar og virka bara flott lið enda búnar að vinna alla leikina sem þær hafa spilað á þessu tímabili þannig að þetta verður verðugt verkefni fyrir okkur,“ bætti hún við.

Allar klárar nema ein

Spurð út í stöðuna á liði Eyjakvenna sagði Hrafnhildur Hanna:

„Við erum bara flestar í góðu standi og spenntar að takast á við verkefnið. Það er ein sem er ekki með, Karolina [Olszowa]. Annars erum við allar klárar. Þetta er bara sami hópur og hefur verið hjá okkur í undanförnum leikjum heima í deildinni.

Það er ekkert nýtt frá síðustu leikjum og við höldum áfram að byggja á því sem við höfum verið að vinna með undanfarna daga og vikur.“

ÍBV tók einnig þátt í Evrópubikar kvenna á síðasta tímabili þar sem liðið komst í 8-liða úrslit en féll þar úr leik gegn spænska liðinu Costa del Sol Málaga.

Öðruvísi að mæta þeim í alvöru

Á þessu tímabili sló ÍBV gríska liðið Ionias úr keppni í 32-liða úrslitum keppninnar í október síðastliðnum. Hún sagði Eyjakonur því reynslunni ríkari í Evrópu undanfarið rúmt ár.

„Já algjörlega. Það er komin smá reynsla í hópinn. Við erum með svipaðan hóp og í fyrra. Það hjálpar klárlega. Að koma inn í þessa leiki er auðvitað aðeins öðruvísi heima á Íslandi þegar við þekkjum liðin og leikmenn mótherjana mun betur.

Það eina sem við getum séð hérna eru vídeó af fyrri leikjum hjá þeim. Það er kannski svolítið takmarkað sem við getum tekið út úr því. Auðvitað sjáum við leikmenn og svona aðeins hvernig þær spila en það er aðeins öðruvísi að mæta þeim í alvöru. Það er svona smá óvissuþáttur þar.“

Höfum aðeins prófað þetta

„En við erum auðvitað með reynsluna frá því í fyrra og erum búin að spila eina umferð á móti Grikkjunum fyrr í haust.

Þannig að við höfum aðeins prófað þetta og vitum að við þurfum að vera 100 prósent klárar til þess að gefa andstæðingnum alvöru leiki,“ sagði Hrafnhildur Hanna að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert