Afturelding sótti tvö stig í Garðabæ

Blær Hinriksson var öflugur í liði Aftureldingar og reynir hér …
Blær Hinriksson var öflugur í liði Aftureldingar og reynir hér skot að marki Stjörnunnar í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Afturelding vann í kvöld góðan útisigur á Stjörnunni í Garðabæ í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, þar sem lokatölur urðu 29:26.

Afturelding komst þar með að hlið FH í öðru sæti deildarinnar með 16 stig en Stjarnan situr áfram í fimmta sætinu með 13 stig.

Stjarnan var með undirtökin fyrstu 20 mínúturnar en þá komst Afturelding yfir í fyrsta sinn og náði 8:6-forystu. Munurinn til loka fyrri hálfleiks var eitt til tvö mörk, Mosfellingum í hag, og þeir voru yfir í hálfleik, 12:10.

Afturelding komst í 15:11 og 17:13 í síðari hálfleik en Stjarnan jafnaði í 17:17. Jafnt var á öllum tölum þar til Afturelding breytti stöðunni úr 23:23 í 26:23 þegar sjö mínútur voru eftir. Þá tók við fimm mínútna kafli þar sem hvorugt liðið náði að skora og Jovan Kukobat í marki Aftureldingar varði m.a. vítakast. 

Afturelding komst í 28:25 og þar með var forskotið orðið of mikið fyrir Garðbæinga.

Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 5, Leó Snær Pétursson 5, Pétur Árni Hauksson 4, Starri Friðriksson 3,  Hergeir Grímsson 3, Þórður Tandri Ágústsson 2, Gunnar Steinn Jónsson 2, Arnar Freyr Ársælsson 2.
Adam Thorstensen varði 12 skot og Arnór Freyr Stefánsson 4.

Mörk Aftureldingar: Blær Hinriksson 10, Birkir Benediktsson 6, Ihor Kopyshynskyi 4, Árni Bragi Eyjólfsson 3, Gestur Ólafur Ingvarsson 2, Stefán Scheving 2, Einar Ingi Hrafnsson 1, Pétur Júníusson 1.
Jovan Kukobat varði 14/2 skot.

mbl.is