Sannkallaður stórleikur Viggós í enn einum sigri Leipzig

Viggó Kristjánsson skoraði níu mörk og lagði upp sex fyrir …
Viggó Kristjánsson skoraði níu mörk og lagði upp sex fyrir Leipzig í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Það voru fjölmargir Íslendingar í eldlínunni í þýsku 1. deildinni í handbolta í dag.

Viggó Kristjánsson átti sannkallaðan stórleik þegar Leipzig vann enn einn sigurinn. Liðið lagði Flensburg í dag, 31:30. Viggó var markahæsti maður vallarins með níu mörk og þar á meðal sigurmark þegar ein sekúnda var til leiksloka. Auk þess lagði hann upp önnur sex mörk. Rúnar Sigtryggsson þjálfar lið Leipzig en liðið hefur unnið alla fimm leiki sína síðan hann tók við.

Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað hjá Flensburg í dag en liðið er í fimmta sæti með 20 stig. Leipzig er í 11. sæti með 14 stig.

Gísli Þorgeir Kristjánsson átti skínandi góðan leik fyrir Magdeburg í …
Gísli Þorgeir Kristjánsson átti skínandi góðan leik fyrir Magdeburg í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Þeir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson áttu báðir flottan leik fyrir Magdeburg í 37:33-heimasigri á Lemgo. Báðir skoruðu þeir fimm mörk en Gísli lagði upp önnur fimm mörk og Ómar þrjú. Magdeburg er í fimmta sæti deildarinnar með 19 stig.

Arnar Freyr Arnarsson var markahæstur í liði Melsungen sem gerði 22:22-jafntefli við Bergischer. Elvar Örn Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Melsungen en Arnór Þór Gunnarsson komst ekki á blað fyrir Bergischer. Melsungen er í sjötta sæti deildarinnar með 15 stig en Bergischer er í 12. sæti með 11 stig.

Þá gerði Hannover-Burgdorf 29:29-jafntefli við Hamm. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem er í níunda sæti deildarinnar með 14 stig.

Arnar Freyr Arnarsson var markahæstur í liði Melsungen.
Arnar Freyr Arnarsson var markahæstur í liði Melsungen. Ljósmynd/Szilvia Micheller
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert