Skoraði 17 mörk í ótrúlegu jafntefli fyrir norðan

Menn leiksins, Einar Rafn Eiðsson og Birgir Steinn Jónsson, í …
Menn leiksins, Einar Rafn Eiðsson og Birgir Steinn Jónsson, í baráttunni í leiknum í dag. Andri Þór Helgason fylgist með. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Grótta skildu jöfn, 33:33, í stórkostlegum leik í KA-heimilinu á Akureyri í Olísdeild karla í handbolta í dag.

Einar Rafn Eiðsson átti gjörsamlega magnaðan leik í liði KA en hann skoraði 17 mörk úr 19 skotum. Hjá Gróttu á Birgir Steinn Jónsson einnig frábæran leik en hann skoraði 12 mörk úr jafnmörgum skotum.

Grótta leiddi mest allan leikinn en þegar leið á síðari hálfleikinn komst KA yfir. Heimamenn leiddu með tveimur mörkum þegar 25 sekúndur voru eftir af leiknum en þá tók Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu leikhlé. Eftir leikhléið minnkaði Theis Koch Söndergard muninn og svo á einhvern ótrúlegan hátt tókst Gróttu að vinna boltann aftur og ná í vítakast þegar leikklukkan rann út. Birgir Steinn tók vítakastið og skoraði.

Jafntefli gerir lítið fyrir bæði lið hvað varðar stöðuna í deildinni en þau eru bæði með níu stig í í 9. og 10. sæti.

Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 17, Gauti Gunnarsson 5, Dagur Gautason 3, Arnór Ísak Haddsson 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Haraldur Bolli Heimisson 1, Einar Birgir Stefánsson 1, Hilmar Bjarki Gíslason 1, Patrekur Stefánsson 1.

Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 12, Lúðvík Arnkelsson 6, Theis Koch Söndergard 5, Þorgeir Bjarki Davíðsson 4, Andri Þór Helgason 2, Hannes Grimm 2, Jakob Stefánsson 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert