Gunnar og Sigurður skilja sáttir

Blær Hinriksson sækir að marki Stjörnunnar í leiknum á sunnudag.
Blær Hinriksson sækir að marki Stjörnunnar í leiknum á sunnudag. mbl.is/Óttar Geirsson

Gunnar Malmquist Þórsson, leikmaður Aftureldingar í handbolta, og Sigurður Bjarnason, fyrrverandi landsliðsmaður og núverandi stjórnarmaður Stjörnunnar, hafa náð sáttum eftir að sá síðarnefndi veittist að Gunnari á sunnudaginn var.

Afturelding vann þá 29:26-útisigur á Stjörnunni í Olísdeildinni og veittist Sigurður að Gunnari eftir leik, á meðan Gunnar fagnaði sætum sigri. Sigurður var ósáttur við að Gunnar hefði fagnað með því að slá í dýrt LED-auglýsingaskilti eftir leik.

Stjarnan birti mynd á Facebook í gærkvöldi, þar sem Gunnar og Sigurður takast í hendur og skilja sáttir.

mbl.is