Teitur og Óðinn í sigurliðum

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði þrjú mörk fyrir Kadetten í kvöld.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði þrjú mörk fyrir Kadetten í kvöld. Haraldur Jónasson/Hari

Nokkrir Íslendingar voru í eldlínunni í kvöld þegar 5. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik karla fór fram. Landsliðsmennirnir Teitur Örn Einarsson og Óðinn Þór Ríkharðsson voru þar á meðal í sigurliðum.

Teitur Örn skoraði eitt mark í 38:32-sigri Flensburg á Benidorm í B-riðli, riðli Vals.

Flensburg er þar með áfram á toppi riðilsins með átta stig. Aix og Ystad koma þar á eftir með sex stig og Valur er í fjórða sæti með fimm stig.

Kadetten Schaffhausen gerði þá frábæra ferð til Þýskalands og lagði Göppingen að velli með minnsta mun, 25:24, í A-riðlinum.

Óðinn Þór skoraði þrjú mörk fyrir Kadetten, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar.

Liðið er eftir sigurinn með átta stig í öðru sæti A-riðils.

Austurríska liðið Alpla Hard, sem Hannes Jón Jónsson þjálfar, krækti í sitt fyrsta stig í C-riðli þegar það gerði 30:30-jafntefli við Balatonfüredi, sem vann sér sömuleiðis inn sitt fyrsta stig í riðlinum.

Í sama riðli tapaði Skjern, sem Sveinn Jóhannsson leikur með, 28:30 fyrir Sporting frá Lissabon.

Sveinn komst ekki á blað hjá Skjern að þessu sinni.

Liðið er í þriðja sæti C-riðils með sex stig, en Granollers í öðru sæti og Sporting í fjórða eru einnig með sex stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert