Valur missti niður sjö marka forskot í Búdapest

Aron Dagur Pálsson í kröppum dansi í Búdapest.
Aron Dagur Pálsson í kröppum dansi í Búdapest. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íslands- og bikarmeistarar Vals þurftu að sætta sig við 33:33-jafntefli á útivelli gegn Ferencváros frá Ungverjalandi í Evrópudeild karla í handbolta í kvöld.

Valsmenn voru mest sjö mörkum yfir í seinni hálfleik, en Ungverjarnir voru betri á lokakaflanum og tryggðu sér stig með marki úr víti, eftir að leiktíminn rann út.

Leikurinn var jafn framan af, en heimamenn byrjuðu ögn betur og var staðan þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður, 9:7. Kristóf Gyori var að verja vel og að reynast Val erfiður.

Í stöðunni 11:9 tók Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, leikhlé og við það breyttist leikurinn. Valsmenn voru snöggir að jafna í 11:11 og komast yfir, 13:12.

Valsmenn héldu áfram að bæta í forskotið undir lok fyrri hálfleiks og var munurinn fjögur mörk í hálfleik, 18:14. Stiven Tobar Valencia lék gríðarlega vel í fyrri hálfleik og skoraði sex mörk og Björgvin Páll Gústavsson varði tíu skot í markinu.

Stiven og Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og var munurinn orðinn sjö mörk, 26:19, þegar skammt var liðið af seinni hálfleik og Stiven kominn með níu mörk.

Eftir því sem leið á hálfleikinn tókst heimamönnum að minnka muninn hægt en örugglega og þegar fimm mínútur voru eftir munaði einu marki, 30:29, og stefndi í æsispennandi lokamínútur.

Sú varð raunin, því heimamenn jöfnuðu í 32:32 þegar tvær mínútur voru eftir. Arnór Snær Óskarsson kom Val í 33:32 þegar 12 sekúndur voru eftir, en heimamenn náðu í vítakast þegar leiktíminn var að renna út. Bendegúz Bujdosó tók vítið, jafnaði og tryggði ungverska liðinu annað stigið.

Stiven Tobar var markahæstur hjá Val með tíu mörk og Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði átta. Björgvin Páll Gústavsson varði 15 skot í markinu.

Valur er í fjórða sæti riðilsins með fimm stig eftir fimm leiki og tveimur stigum á undan Ferencváros, þegar liðin eiga fimm leiki eftir. Fjögur efstu liðin fara áfram í útsláttarkeppnina.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ferencváros 33:33 Valur opna loka
60. mín. Ferencváros tekur leikhlé Slétt mínúta eftir og heimamenn í fínu færi til að skora það sem gæti orðið sigurmark.
mbl.is