Maturinn í Tékklandi fær 10,5

Rúnar Kárason er á meðal reynslumestu leikmanna ÍBV.
Rúnar Kárason er á meðal reynslumestu leikmanna ÍBV. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þessir leikir leggjast mjög vel í okkur,“ sagði Rúnar Kárason, leikmaður karlaliðs ÍBV í handknattleik, í samtali við mbl.is í dag.

ÍBV mætir Dukla Prag í 32-liða úrslitum Evrópubikars karla á Prag í Tékklandi, á laugardag og sunnudag, en báðir leikirnir fara fram ytra.

„Við erum búnir að sjá þrjá til fjóra leiki með þeim og það er búið að fara vel yfir þá. Við teljum möguleika okkar nokkuð góða gegn þeim og við ætlum okkur áfram í þessari keppni.

Þetta er fornfrægt lið og allt það en tékkneska deildin hefur ekki verið hátt skrifuð undanfarin ár og miðað við það sem við höfum séð teljum við okkur geta lagt þá að velli.

Á sama tíma er ekki nóg að finnast við eiga að vinna heldur þarf að gera það líka,“ sagði Rúnar léttur.

Eyjamenn ætla sér áfram í næstu umferð.
Eyjamenn ætla sér áfram í næstu umferð. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ekki yfir neinu að kvarta

Eyjamenn lögðu af stað til Tékklands í gærmorgun.

„Ferðalagið gekk mjög vel, að undanskildu smá töskuveseni en við erum í góðum málum núna. Aðstæðurnar hérna eru góðar, við erum á mjög flottu hóteli og maturinn er upp á 10,5. Keppnishöllin er orðin frekar gömul og það er smá Austur-Evrópu bragur yfir þessu en á sama tíma er ekki yfir neinu að kvarta.“

Rúnar snéri heim til Íslands á síðasta ári eftir 12 ár í atvinnumennsku og hann þekkir það því vel að spila á erlendri grundu.

„Það er alltaf gaman að máta sig við önnur lið og taka þátt í nýrri keppni. Það eru margir ungir leikmenn í hópnum og þetta er mjög dýrmæt reynsla fyrir þá. Það gerir heilan helling fyrir okkur og félagið að taka átt í þessu og þetta þjappar hópnum vel saman líka,“ bætti Rúnar við í samtali við mbl.is.

mbl.is