Hannaði styrktarprógramm fyrir Íslandsmeistara

Vésteinn Hafsteinsson nýr afreksstjóri ÍSÍ.
Vésteinn Hafsteinsson nýr afreksstjóri ÍSÍ. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Vésteinn Hafsteinsson, nýráðinn afreksstjóri ÍSÍ, hefur í gegnum tíðina auk starfa sinna sem kastþjálfari í frjálsíþróttum hjálpað víða til bakvið tjöldin.

Vésteinn sagði frá því í viðtali við mbl.is á dögunum hvernig hann hannaði styrktarprógram fyrir karlalið Selfoss í handbolta en sjálfur er Vésteinn Selfyssingur.

„Ég skrifaði styrktarprógramm fyrir liðið og sá um prógrammið í fimm ár ásamt Jóni Birgi Guðmundssyni og Rúnari Hjálmarssyni. Liðið komst upp í úrvalsdeild og hampaði Íslandsmeistaratitlinum fimm árum eftir að það fór að nota prógrammið frá mér.“

Vésteinn sagðist fylgjast vel með handbolta en hann sagði að þeim Jóni Birgi, sem er sjúkraþjálfari karlalandsliðsins og jafnframt faðir Elvars Arnar Jónssonar landsliðsmanns, væri vel til vina og að þeir tali mikið um handbolta.

„Sonur minn spilar einnig handbolta svo handboltinn á sess hjá mér. Ég hélt fund með Guðmundi Guðmundssyni landsliðsþjálfara í vor. Það er mikilvægt að hlúa vel að handboltanum enda er handboltinn okkar besta hópíþrótt," sagði Vésteinn en sonur hans, Örn Vésteinsson Österby, leikur með þýska B-deildarliðinu N-Lübbecke.

mbl.is