Ótrúlega glöð með ákvörðun Akureyringsins

Oddur Gretarsson verður hjá Balingen næstu tvö ár.
Oddur Gretarsson verður hjá Balingen næstu tvö ár. Ljósmynd/Balingen

Hornamaðurinn Oddur Gretarsson hefur framlengt samning sinn við þýska handknattleiksfélagið Balingen um tvö ár.

Oddur hefur verið í röðum félagsins frá árinu 2017 og verið einn besti leikmaður liðsins síðan. Liðið er í toppsæti 2. deildarinnar, eftir fall úr 1. deild á síðustu leiktíð.

„Við erum ótrúlega glöð með að Oddur verði áfram í okkar herbúðum. Hann hefur gert vel í að koma til baka eftir meiðsli.

Hann er mikil og góð fyrirmynd fyrir yngri leikmenn og er komin í mikið ábyrgðarhlutverk,“ var haft eftir Jens Bürkle þjálfara liðsins á heimasíðu félagsins.

mbl.is