Meistararnir sneru taflinu við undir lokin

Arnór Snær Óskarsson sækir að marki Gróttu í kvöld.
Arnór Snær Óskarsson sækir að marki Gróttu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals gerðu góða ferð á Seltjarnarnes og lögðu þar Gróttu, 32:28, í æsispennandi fyrsta leik eftir HM-hlé í Olís deild karla í handknattleik í kvöld.

Grótta var með undirtökin stóran hluta leiksins og komst til dæmis í 10:5 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður.

Áfram héldu yfirburðir heimamanna sem var enn fimm mörkum yfir, 15:10, þegar skammt var eftir af hálfleiknum.

Valsmenn löguðu stöðuna áður en fyrri hálfleikur var úti en staðan var 16:13 í hálfleik.

Grótta byrjaði síðari hálfleikinn með besta móti og náði enn á ný fimm marka forskoti, 21:16.

Valur tók þá aftur vel við sér og minnkaði muninn niður í tvö mörk, 23:21, þegar síðari hálfleikur var tæplega hálfnaður.

Valsmönnum óx ásmegin og náðu að jafna metin í 26:26, þegar rúmar átta mínútur lifðu leiks og stuttu síðar náðu gestirnir forystunni í fyrsta sinn í leiknum, 27:26.

Liðið var þar með komið með blóð á tennurnar, jók forskotið hægt og bítandi og vann að lokum frækinn fjögurra marka endurkomusigur.

Benedikt Gunnar Óskarsson átti stórkostlegan leik fyrir Val og skoraði 13 mörk.

Markahæstir hjá Gróttu voru Birgir Steinn Jónsson, Lúðvík Thorberg Arnkelsson og Daníel Örn Griffin, allir með sex mörk.

Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 6, Lúðvík Thorberg Arnkelsson 6, Daníel Örn Griffin 6, Jóel Bernburg 3, Andri Þór Helgason 3, Theis Koch Sondergard 2, Jakob Ingi Stefánsson 1, Þorgeir Bjarki Davíðsson 1.

Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 10, Ísak Arnar Kolbeins 0.

Mörk Vals: Benedikt Gunnar Óskarsson 13, Þorgils Jón Svölu Baldursson 4, Arnór Snær Óskarsson 4, Magnús Óli Magnússon 2, Finnur Ingi Stefánsson 2, Aron Dagur Pálsson 2, Agnar Smári Jónsson 1, Tryggvi Garðar Jónsson 1, Stiven Tobar Valencia 1, Tjörvi Týr Gíslason 1, Bergur Elí Rúnarsson 1.

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 6, Motoki Sakai 3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert