Ómar lengi frá eftir aðgerð á hásin

Ómar Ingi Magnússon í leik með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu …
Ómar Ingi Magnússon í leik með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik, gekkst undir aðgerð á hásin í gær og óttast félagslið hans, Þýskalandsmeistarar Magdeburg, að hann verði frá út tímabilið vegna meiðslanna.

Á heimasíðu Magdeburgar segir að útlit sé fyrir að Ómar Ingi spili ekki meira á yfirstandandi tímabili en að það kæmi þó endanlega í ljós þegar lagt hefur verið lokamat á hvernig aðgerðin hafi gengið.

„Fjarvera Ómars kemur auðvitað gríðarlega niður á okkur. Það vita allir hversu mikilvægur hann er fyrir sóknar- og varnarleik okkar.

Þessari ábyrgð þurfum við ná að deila á herðar nokkurra leikmanna liðsins. Við óskum Ómari skjóts bata og vonum að hann verði aftur á skýrslu sem fyrst,“ sagði Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburgar.

mbl.is