Stjarnan lagði Íslandsmeistarana

Anna Karen Hansdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Stjörnuna í dag.
Anna Karen Hansdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Stjörnuna í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Stjarnan hafði betur gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Fram, 31:28, þegar liðin áttust við í 15. umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik, Olísdeildarinnar, í Garðabæ í dag.

Mikið jafnræði var með liðunum stóran hluta fyrri hálfleiks en undir lok hans fór Stjarnan að sigla fram úr og náði mest fimm marka forystu, 16:11.

Fram skoraði síðasta mark hálfleiksins og staðan því 16:12 í hálfleik.

Gestirnir unnu sig vel inn í leikinn í síðari hálfleik og jöfnuðu metin í 24:24 þegar hann var rúmlega hálfnaður.

Í kjölfarið var leikurinn í járnum um stund, eða allt þar í lokin þegar Stjarnan náði aftur yfirhöndinni og komst fjórum mörkum yfir, 31:27.

Fram skoraði síðasta mark leiksins og niðurstaðan þriggja marka sigur heimakvenna.

Eva Björk Davíðsdóttir var markahæst í leiknum með níu mörk fyrir Stjörnuna.

Perla Ruth Albertsdóttir skoraði þá átta mörk fyrir Fram.

Stjarnan er áfram í þriðja sæti eftir sigurinn en nú með 23 stig, einu stigi minna en ÍBV í öðru sæti. Fram heldur einnig kyrru fyrir í fjórða sæti með 17 stig.

Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 9, Lena Margrét Valdimarsdóttir 5, Stefanía Theodórsdóttir 5, Britney Cots 3, Anna Karen Hansdóttir 3, Helena Rut Örvarsdóttir 3, Elísabet Gunnarsdóttir 2, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 1.

Varin Skot: Darija Zecevic 10.

Mörk Fram: Perla Ruth Albertsdóttir 8, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 6,  Kristrún Steinþórsdóttir 5, Madeleine Lindholm 3, Hekla Rún Ámundadóttir 3, Harpa María Friðgeirsdóttir 2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1.

Varin skot: Hafdís Renötudóttir 9.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert