Selfoss upp um tvö sæti

Andri Már Rúnarsson skýtur að marki Selfyssinga í kvöld. Sölvi …
Andri Már Rúnarsson skýtur að marki Selfyssinga í kvöld. Sölvi Svavarsson fylgist með. mbl.is/Óttar Geirsson

Selfoss fór upp úr áttunda sæti og í það sjötta er liðið vann 31:28-heimasigur á Haukum í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Haukar eru nú í áttunda sæti, en tapið var það fyrsta hjá Haukum eftir þrjá sigra í röð. 

Liðin komu vel stemmd úr tveggja mánaða fríi frá kappleikjum og það var boðið upp á mikinn hraða framan af leiknum. Haukar náðu 5:1-áhlaupi snemma leiks og það fór illa með Selfyssingana. Þeir voru í því hlutverki að elta allan fyrri hálfleikinn og ákvarðanir þeirra vínrauðu í sókninni voru oft slakar. Haukar leiddu sanngjarnt 19:15 í hálfleik.

Viðsnúningurinn var algjör í seinni hálfleiknum. Selfyssingar stóðu vörnina betur og Vilius Rasimas varði nokkur skot strax í upphafi, þannig að Selfoss jafnaði 22:22 eftir tíu mínútur. Heimamenn fengu mikinn byr í seglin og á sama tíma fóru Haukar að hika í sókninni. Varnarleikur Selfyssinga var algjörlega frábær, þeir héldu Haukum í níu mörkum í seinni hálfleik og það var ekki síst fyrir stórleik Rasimas í markinu á lokakaflanum.

Guðmundur Hólmar Helgason var frábær bæði í vörn og sókn hjá Selfyssingum og Guðjón Baldur Ómarsson átti stórleik í sókninni. Guðmundur skoraði níu mörk og Guðjón átta. Rasimas varði 20/1 skot og var frábær með góða vörn fyrir framan sig þar sem Sverrir Pálsson hafði Haukana í hendi sér.

Andri Már Rúnarsson fór á kostum fyrir Hauka í fyrri hálfleik og hann lauk leik með níu mörk. Brynjólfur Snær Brynjólfsson var líka mikilvægur á báðum endum vallarins en hann skoraði sex mörk. Haukar fengu litla markvörslu í leiknum; Matas Pranckevicus varði 8/1 skot og Magnús Gunnar Karlsson 2.

Selfoss 31:28 Haukar opna loka
60. mín. Haukar tekur leikhlé Er spennan að fara með Hauka? Ásgeir Örn tekur leikhlé.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert