Ótrúlegur endurkomusigur í Mosfellsbæ

Framarinn Marko Coric í baráttunni í Mosfellsbænum í kvöld.
Framarinn Marko Coric í baráttunni í Mosfellsbænum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reynir Þór Stefánsson átti stórleik fyrir Fram þegar liðið vann ótrúlegan endurkomusigur gegn Aftureldingu í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, að Varmá í Mosfellsbæ í 14. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með eins marks sigri Fram, 30:29, en Reynir Þór skoraði sjö mörk í leiknum.

Jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútum leiksins en svo kom Igor Kopishnsky Aftureldingu þremur mörkum yfir, 10:7, þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum.

Frömurum tókst að minnka forskotið í í eitt mark, 10:9, en Afturelding var þó með yfirhöndina og Mosfellingar náðu aftur þriggja marka forskoti, 14:11, þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Einar Ingi Hrafnsson kom Aftureldingu þremur mörkum yfir, 16:13 en Reynir Þór Stefánsson minnkaði muninn á lokasekúndunum og Afturelding leiddi því með tveimur mörkum í hálfleik, 16:14.

Mosfellingar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og Einar Ingi Hrafnsson kom Aftureldingu fimm mörkum yfir, 21:16, þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Framarar neituðu að gefast upp og Ívar Logi Styrmisson minnkaði muninn í tvö mörk, 22:24, með laglegu marki beint úr hraðaupphlaupi þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Framarar héldu áfram að saxa niður forskot Aftureldingar og þegar rúmlega fimm mínútur voru til leiksloka jafnaði Stefán Orri Arnalds metin fyrir Framara, 26:26, eftir að Mosfellingar höfðu kastað boltanum klaufalega frá sér.

Liðin skiptust svo á að skora og það var Breki Dagsson sem skoraði sigurmark leiksins þegar tæp mínúta var til leiksloka.

Afturelding fékk tækifæri til þess að jafna metin en Lárus Helgi Ólafsson varði vel frá Blæ Hinrikssyni og Framarar fögnuðu sigri.

Ívar Logi Styrmisson skoraði fimm mörk fyrir Framara en Þorsteinn Leó Gunnarsson var markahæstur í liði Aftureldingar með sex mörk.

Framarar fara með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar í 17 stig en Afturelding er í því fjórða með, einnig með 17 stig.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Afturelding 29:30 Fram opna loka
60. mín. Breki Dagsson (Fram) skoraði mark
mbl.is